Flýtilyklar
199 daga byggingarsaga íþróttahúss
Þann 18. október 1991 var íþróttahús KA vígt við hátíðlega athöfn að viðstöddu miklu fjölmenni. Bygging hússins vakti athygli meðal almennings og fjölmiðla, einkum fyrir þá sök að forsvarsmenn KA höfðu gefið út þá yfirlýsingu að þeir ætluðu að byggja húsið á sex mánuðum. Margir voru afar vantrúaðir á að slíkt tækist og þótti nóg um yfirlýsingargleði KA manna. Þá drógu menn í efa að KA ætti möguleika á að standa við þær fjárhagsskuldbindingar sem það tæki á sig vegna byggingarinnar. Menn skiptust einnig í tvö horn þegar rætt var um þörfina fyrir annað íþróttahús af þessari stærð í bæinn. Margir voru þeirrar skoðunar að íþróttahöllin og önnur hús sem fyrir voru í bænum nægðu félögunum til æfinga og keppni og að þeim peningum sem Akureyrarbær hygðist láta af hendi rakna væri betur varið til annarra framkvæmda í þágu bæjarbúa.
Margir KA menn og ekki síst þeir sem að byggingu íþróttahúss KA stóðu, vissu sem var að tilkoma íþróttahúss myndi gerbreyta allri aðstöðu félagsins, til íþróttaiðkana og æfinga, til hins betra og ekki síður myndi það stuðla að auknu og betra félagslífi. Margir voru einnig þeirrar skoðunar að það væri til hagsbóta fyrir bæinn að byggja íþróttahús í samvinnu við KA, sem einnig væri ætlað til afnota fyrir Lundarskóla, en nemendur Lundarskóla höfðu um langt árabil þurft að sækja leikfimitíma í íþróttahúsið við Laugargötu.
Þeir sem ekki trúðu því að hægt væri að byggja 2700 fm hús á sex mánuðum þurftu svo sannarlega að kyngja efasemdum sínum því húsið var byggt á 199 dögum eða rúmlega sex mánuðum og var sá byggingarhraði talinn slá öll met.
Íþróttahúsið búið að taka á sig endanlega mynd
Hvað fjárhagsskuldbindingarnar snertir; þá hefur KA tekist að standa í skilum, en vissulega hefur þurft að beita aðhaldi og sparnaði og fresta ýmsum mikilvægum framkvæmdum. Það hefur sýnt sig að það var full þörf fyrir íþróttahús KA í bæinn, og er það í fullri notkun frá morgni til kvölds. Þar fá færri tíma en vilja.
Óhætt er að segja að íþróttahús KA hefur reynst ákaflega vel sem keppnishús í handbolta og blaki. Lögun hússins, nálægð áhorfenda við leikmenn og litir á gólfi gera það að verkum að mikil og góð stemmning skapast í húsinu sem gerir andstæðinga okkar ekki öfundsverða af því að keppa við KA á heimavelli. Í húsinu hefur fjöldi fólks notið stórkostlegrar skemmtunar á handboltaleikjum, um það vitnar aðsóknin undanfarna vetur. Í húsinu fengu júdómenn loks ágæta aðstöðu til æfinga og hefur það orðið júdóíþróttinni til mikils framdráttar.
Þó bygging hússins tæki aðeins 199 daga af árinu 1991 þá má rekja upphafið til ársins 1987, en þá fór stjórn KA að þreifa fyrir sér hjá skipulagsyfirvöldum bæjarins varðandi það hvort KA yrði heimilað að reisa íþróttahús á félagssvæði sínu.
Í framhaldi af því voru hafnar óformlegar viðræður við skólastjóra Lundarskóla og formann foreldrafélags skólans með það fyrir augum að húsið nýttist Lundarskóla sem kennsluhúsnæði í leikfimi á skólatíma en að öðru leiti KA til æfinga og leikja.
Þessar viðræður leiddu til þess að KA óskaði eftir viðræðum við bæjarstjórn Akureyrar með bréfi dagsettu í júní 1988. Í framhaldi af því fól bæjarráð skólanefnd Akureyrar að taka upp viðræður við KA um hina ýmsu valkosti varðandi byggingu íþróttahúss fyrir KA og Lundarskóla. Starfshópur var skipaður til að skoða ýmsar hugmyndir sem upp höfðu komið og vinna áfram í málinu. Í starfshópnum áttu sæti þrír menn þar af einn frá KA, en þrátt fyrir það gerðist lítið í málinu næstu tvö árin.
Í kjölfar rammasamnings um samstarf milli Akureyrarbæjar og ÍBA voru gerðir samningar við nokkur íþróttafélög í bænum um framkvæmdir og uppbyggingu á félagssvæðum þeirra. Þetta fór nokkuð fyrir brjóstið á okkur KA mönnum og þótti okkur að félagið væri afskipt í þessum samningum. Á aðalfundi KA í febrúar 1990 kom fram mjög ákveðinn vilji félagsmanna fyrir því að KA tæki upp þráðinn í viðræðum við Akureyrarbæ um byggingu íþróttahúss á félagssvæði sínu. Eftir þetta gerðust hlutirnir hratt.
Í apríl 1990 skipaði stjórn KA undirbúningsnefnd til að vinna að málinu. Nefndinni var falið að eiga viðræður við bæjaryfirvöld og í lok maí hafði bæjarráð fallist á drög að samningi um byggingu íþróttahúss sem yrði 30 x 58 metrar, auk tengibyggingar við félagsheimilið.
Í september 1990 skipaði stjórn KA byggingarnefnd fyrir húsið. Í nefndinni áttu sæti Sigmundur Þórisson, formaður félagsins, Sigurður Sigurðsson, byggingarverktaki og stjórnarmaður í handknattleiksdeild, Einar Jóhannsson, formaður handknattleiksdeildar, Björgólfur Jóhannsson, endurskoðandi og Halldór Jóhannsson, landslagsarkitekt og stjórnarmaður í aðalstjórn.
Byggingarnefnd íþróttahússins. Frá vinstri: Björgólfur Jóhannsson, Sigmundur Þórisson, Halldór Jóhannsson, Einar Jóhannsson, Sigurður Sigurðsson.
Nefndin fundaði reglulega tvisvar í viku og það var gæfa hennar að vera strax samstillt í störfum sínum því álagið var mikið næstu mánuði og oft þurfti að taka skjótar ákvarðanir.
Samningar við Akureyrarbæ um byggingu hússins voru undirritaðir 26. mars 1991 og þann 30. mars tóku formaður félagsins og forseti bæjarstjórnar, Sigríður Stefánsdóttir, fyrstu skóflustungu að íþróttahúsinu að viðstöddu fjölmenni.
Skrifað undir byggingarsamning við Akureyrarbæ um byggingu íþróttahúss KA. Til vinstri Halldór Jónsson, bæjarstjóri og Sigmundur Þórisson, formaður KA til hægri.
Fyrsta skóflustungan tekin af Sigmundi Þórissyni, formanni KA og Sigríði Stefánsdóttur, forseta bæjarstjórnar Akureyrar.
Stórvirkari aðgerðir hafnar
Fjölmenni við fyrstu skóflustunguna
Ákveðið var að húsið yrði 1800 fm án tengibyggingar, en með fyrstu hæð og sal á annarri hæð auk tengibyggingar á tveimur hæðum er nýtanlegt flatarmál um það bil 2700 fm. Akureyrarbær tók þátt í kostnaði 2200 fm að 75% hluta eða 1650 fm en 1050 fm auk frágangs við bílastæði og lóð var á kostnað KA.
Það var eitt af markmiðum byggingarnefndar að eiga sem mest viðskipti við heimamenn og innlenda aðila vegna framkvæmdanna. Teiknistofan Form teiknaði húsið í samráði við byggingarnefnd, en aðalverktaki við byggingu hússins var byggingafyrirtækið SS Byggir.
Byggingaframkvæmdir við íþróttahúsið.
Allir þeir einstaklingar og fyrirtæki sem komu á einhvern hátt nálægt byggingu hússins reyndust félaginu afar vel og átti KA við þau góð og hagstæð viðskipti. Kostnaðaráætlanir stóðust í öllum meginatriðum, en verðbréfafyrirtækið Handsal var byggingarnefnd til ráðgjafar varðandi fjármál.
Við byggingu hússins kom vel í ljós hversu miklu Grettistaki má lyfta ef áhugi og samstaða félagsmanna er fyrir hendi.
Búið að reisa burðarbita og KA menn halda sumarhátíð og reisugilli. Mynd úr Degi 10. júlí 1991.
Kraftaverkalið að verki í byggingu íþróttahúss KA. Frá vinstri: Andrés Magnússon, Sigurður Sigurðsson, Sigtryggur Guðlaugsson, Ragnar Sverrisson, Friðjón Jónsson, Jón Stefánsson, Ingvi Óðinsson, Hermann Haraldsson, Halldór Rafnsson. Fyrir framan Gísli Andrésson og Þorleifur Ananíasson.
Byggingarnefndinni taldist til að unnar hefðu verið 8-10.000 klst. í sjálfboðavinnu við byggingu hússins. Jafnframt þeirri vinnu lögðu sjálfboðaliðar þökur á 10.000 fm æfingasvæði knattspyrnumanna sem staðsett er austan Lundarskóla.
Margir félagsmenn lögðu á sig mikla vinnu við þessar framkvæmdir og voru óeigingjarnir á tíma sinn og sýndu svo sannarlega hinn sanna félagsanda í verki. Slíkt vinnuframlag er að sjálfsögðu aldrei hægt að þakka sem vert er, enda ef til vill ekki ætlast til þess, við vorum jú að byggja hús yfir starfsemi félagsins, hús sem hefur á allan hátt orðið hin mesta lyftistöng fyrir félagið okkar.
Mynd úr íþróttahúsinu sem birtist í Degi 7. september 1991.
Stefán Kristjánsson og Alfreð Gíslason voru að „græja“ mörkin þegar ljósmyndara Dags bar að garði. Myndin birtist í Degi 18. október 1991.
Sæmdir gullmerki við vígsluathöfnina fyrir þrekvirki unnið á skömmum tíma. Formaður KA ásamt þremur aðalverkstjórum við íþróttahús KA og eiginkonum þeirra. Fremri röð frá vinstri: Ingvi Óðinsson, Sigurður Sigurðsson, Sigurður Jakobsson, Sigmundur Þórisson, formaður. Aftari röð frá vinstri: Rósa Tómasdóttir, Auður Dúadóttir, Guðrún Sigurðardóttir, Minnie Eggertsdóttir.
Glæsileg vígsluhátíð var haldin 18. október 1991 og má meðal annars sjá umfjöllun um hana í Degi sem kom út mánudaginn 20. okt með því að smella hér og meira hér.