Flýtilyklar
Félagsheimili KA
Lengi vel áttu KA félagar engan sérstakan samastað þar sem þeir gátu komið saman, spjallað og lagt á ráðin um framtíðina. Þeim hafði að vísu verið úthlutað litlu herbergi í íþróttahúsinu við Laugargötu en örlög þess urðu að geyma dauða hluti. KA menn sóttu miklu fremur í molakaffi á Hótel KEA en uppeftir í herbergiskytruna. Þetta breyttist fyrst árið 1979 þegar KA fékk inni í Lundarskóla. Á skömmum tíma varð skólinn vinsælasti samkomustaður KA félaga.
Þann 11. maí 1985 byrjaði að hilla undir þáttaskilin miklu. Þá tóku þeir Tómas Steingrímsson, Helgi Schiöth og Jón Sigurgeirsson í sameiningu fyrstu skóflustunguna að vallarhúsi KA á hinu nýja íþróttasvæði félagsins neðan Lundarskóla. Um þetta leiti var félagið búið að koma sér þar upp einum malarvelli, tveimur grasvöllum og um 500 metra girðingu umhverfis svæðið. Áætlaður byggingartími hússins var þrjú ár en um haustið var húsið fokhelt.
Fyrsta skóflustungan að KA heimilinu var tekin af fyrsta formanni félagsins Tómasi Steingrímssyni. Auk hans eru á myndinni frá vinstri: Stefán Gunnlaugsson, Guðmundur Heiðreksson, Jón Sigurgeirsson og Helgi Schiöth. Þeir tveir síðastnefndu voru með Tómasi í fyrstu stjórn félagsins og tóku hver sína skóflustungu.
Byrjað að steypa undirstöður. Á myndinni eru Sigurður Jakobsson, Jón Þórisson, Guðjón Guðbjartsson og Haraldur Sigurðsson.
Unnið í sjálfboðavinnu við að setja þak á húsið.
Stefán Árnason og félagar hans, Bragi Árnason, Magnús Árnason og Egill Stefánsson tóku að sér vissa verkþætti innanhúss.
Það færist fjör í leikinn og reisugilli nálgast.
KA heimilið að taka á sig endanlega mynd.
Og 28. júní 1986 var KA heimilið formlega tekið í notkun. Á einu ári hafði félaginu tekist að reisa um 500 fm hús. Fyrir samstillt átak fjölmargra einstaklina og fyrirtækja hafði markinu verið náð. Einn var sá maður sem öðrum fremur hafði stillt saman krafta húsbyggjendanna og knúið verkið áfram, en það var formaður byggingarnefndarinnar, Stefán Gunnlaugsson. Í viðtali sem tekið var við Stefán sumarið 1987 lýsir hann byggingu KA heimilisins, gefum honum orðið:
„Árið 1984 var lokið við að þökuleggja seinni grasvöllinn á KA svæðinu. Okkur þótti þá bersýnilegt að reisa yrði áhaldageymslu við svæðið. Þetta leiddi til þess að í endaðan október þetta sama ár héldum við fund með bæjarstjórn Akureyrar þar sem við sóttum formlega um leyfi til að reisa vallarhús.
Í febrúar 1985, á aðalfundi KA, voru þeir Guðmundur Heiðreksson, formaður félagsins, Hermann Sigtryggsson, Jóhann Aðalsteinsson, Hreiðar Jónsson og ég, valdir í húsbyggingarnefnd. Þessi nefnd hélt að vísu aldrei formlegan fund og aldrei var bókaður stafkrókur um störf hennar. Þrátt fyrir þetta fundaleysi hittumst við Guðmundur nálega á hverjum degi en Guðmundur sá um teikningar af húsinu í samráði við Ísleif Ingimarsson.
Upphaflega ætluðum við að byggja 80 fm hús yfir tæki og starfsmenn. En það breyttist eins og svo margt annað í sambandi við þessa húsbyggingu.
Það fyrsta sem tók breytingum var staðsetning hússins. Við ætluðum að setja það niður í norðaustur horni KA svæðisins þar sem núna er litli áhaldaskúrinn. En Jón Geir Ágústsson, byggingarfulltrúi Akureyrar, var ekki ánægður með staðsetninguna. Hann vildi hafa húsið miðsvæðis og stakk upp á því að það yrði reist á bílastæðinu, einmitt þar sem KA heimilið stendur núna. Það verður að segjast eins og er að við tókum þessari tillögu ekki vel í fyrstu, okkur fannst Jón vera með óþarfa afskiptasemi, auk þess sem hann fækkaði bílastæðum um helming við þennan „húsflutning“. Eftir á hljótum við að viðurkenna að Jón hafði rétt fyrir sér, KA heimilið stendur á hárréttum stað.
Í maí 1985 hófust byggingarframkvæmdir og í nóvember sama ár héldum við hátíð í húsinu fokheldu. KA klúbbfélagar í Reykjavík færðu okkur þá að gjöf 250 þúsund krónur og börn Ingimundar Árnasonar, söngstjóra, Árni, Magnús, Steinunn og Þórgunnur, gáfu allt gler í húsið til minningar um föður sinn og Ingimund Árnason yngri, sonarson hans.
Þetta hús sem við höfðum gert fokhelt á skömmum tíma, var um 500 fm. Það hafði farið svo, á teikniborðinu auðvitað, að 80 fm tækjageymslan bólgnaði út. Úr varð teikning sem gerði ráð fyrir tveggja hæða byggingu, með búningsherbergjum, böðum, kaffiteríu, snyrtingu fyrir vallargesti og húsvarðaríbúð á efri hæð og vélageymslu, tveimur fundarherbergjum, dómaraherbergi, gufubaði og setustofu á þeirri neðri. Og enn átti skipulagið eftir að breytast.
Lengi gerðum við ráð fyrir búningsherbergjunum á efri hæðinni, þar voru útbúin niðurföll og gerður vatnshalli á gólfið. En dag einn kom Kristinn Kristinsson, síðar húsvörður KA heimilisins, með þá tillögu að þau yrðu færð á neðri hæðina. Og það varð úr, herbergin fóru upp og sturturnar niður.
Einhversstaðar á leiðinni var hætt við húsvarðaríbúðina og innréttaður salur í hennar stað. Þegar kom fram á árið 1986 ákváðum við að vígja húsið 11. maí þá um sumarið, en þá var liðið nákvæmlega eitt ár frá því byggingarframkvæmdirnar byrjuðu. Af þessu gat þó ekki orðið því við vildum flytja inn í húsið fullbúið og fyrr ekki. Það var svo snemma um morguninn laugardaginn 28. júní að við settum KA merkið, sem Ágúst Gunnarsson hafði smíðað, upp á norðurhlið hússins til merkis um að byggingu þess væri lokið. Um nóttina höfðu verið á milli 50 og 60 manns að störfum við frágang heimilisins. Ég man að hitinn um nóttina var um 20°C og góðviðrið hélst allan laugardaginn. Eftir vígslu hússins buðum við öllum Akureyringum í veitingar og um kvöldið héldum við veislu. Okkur þótti við hæfi, í tilefni dagsins, að heiðra sérstaklega nokkra af þeim fjöldamörgu sjálfboðaliðum sem lagt höfðu okkur lið við byggingu hússins. Þeir sem viðurkenningu hlutu voru: Sigurður Jakobsson, Magnús Ingólfsson, Sigurður Sigurðsson, Karl Haraldsson, Sigurður Svanbergsson, Smári Jónsson, Jón Stefánsson, Skúli Ágústsson, Stefán Árnason, Halldór Rafnsson, Halldór Jóhannsson, Kristján Þorvaldsson, Ingólfur Bragason, Jónas Sigurjónsson og Kári Árnason.
Þá verður að geta þess að við hefðum líklega seint treyst okkur í þessar framkvæmdir ef ekki hefði komið til framlag íþróttasjóðs sem greiðir 40% byggingarkostnaðar. Einnig voru bæjaryfirvöld okkur ákaflega hliðholl, bæði við uppbyggingu íþróttasvæðisins sjálfs og einnig KA heimilisins. Sérstaklega vil ég geta um þátt Skúla Ágústssonar og hans fjölskyldu, en hann var óþreytandi að hvetja okkur í sambandi við byggingu hússins og veitti okkur ómetanlegan stuðning.
Við þetta er því að bæta að um svipað leiti og lokahöndin var lögð á KA heimilið var ákveðið að setja upp sólarbekki í kjallara hússins. Þessi starfsemi hefur þanist út og nú í sumar 1987 lagði hún einnig undir sig það pláss í kjallaranum sem ætlað var fyrir tæki. Málin standa því þannig að félagið vantar enn húsnæði undir verkfæri sem tilheyra vallarsvæðinu og það þrátt fyrir að ráðist hafi verið í miklar byggingarframkvæmdir, einkum til að leysa einmitt þennan geymsluvanda.“