KA tekur á móti ÍA í 7. umferð Pepsi deildar karla miðvikudaginn 14. júní klukkan 19:15. Við bendum á að þetta verður fyrsti leikur KA í deildinni sem verður ekki sýndur á Stöð 2 Sport og það er því ekkert annað í stöðunni en að drífa sig á völlinn og hvetja okkar lið til sigurs!
Fyrir leikinn er KA í 4. sæti deildarinnar með 11 stig og er aðeins tveimur stigum á eftir toppliðunum. Í síðustu umferð vannst frábær útisigur á Ólafsvík þar sem Emil Lyng gerði þrennu og Elfar Árni Aðalsteinsson 1 mark. Skagamenn hafa hinsvegar átt brösugri byrjun og sitja í næst neðsta sæti með 3 stig helst er því að kenna að liðið hefur fengið á sig flest mörk í deildinni eða 17 talsins.
Eini sigur ÍA í sumar kom í Vestmannaeyjum þar sem Skagamenn unnu 1-4 sigur og skoraði fyrrum leikmaður KA, Arnar Már Guðjónsson, stórglæsilegt mark sem var einmitt valið mark mánaðarins í deildinni. Arnar spilaði 46 leiki í deild og bikar fyrir KA og skoraði í þeim alls 8 mörk.
Gunnlaugur Jónsson er þjálfari Skagamanna en hann er okkur vel kunnugur enda stjórnaði hann KA sumrin 2011 og 2012. Seinna árið var KA í mikilli baráttu um sæti í efstu deild en slakur árangur gegn neðstu liðum deildarinnar kom í veg fyrir það. Gunnlaugur hætti svo með liðið vegna fjölskylduaðstæðna.
Liðin hafa mæst 47 sinnum í opinberum keppnum og er tölfræðin ekki alveg með okkar mönnum. KA hefur unnið 7 leiki, 11 sinnum hafa liðin gert jafntefli og 29 sinnum hafa gestirnir farið með sigur af hólmi. KA hefur gert 41 mark í þessum leikjum en ÍA alls 94 mörk.
Síðast þegar liðin mættust þá var það á KA-vellinum í undanúrslitum Lengjubikarsins árið 2015. Eftir venjulegan leiktíma var staðan jöfn 1-1 og var farið beint í vítaspyrnukeppni. Þar stóð KA uppi sem sigurvegari eftir að hafa skorað úr öllum sínum spyrnum og 4-2 sigur staðreynd. Jóhann Helgason, Juraj Grizelj, Atli Sveinn Þórarinsson og Elfar Árni Aðalsteinsson tóku vítin og Srdjan Rajkovic í markinu varði lokaspyrnuna.
Við hvetjum ykkur öll til að mæta á Akureyrarvöll á miðvikudaginn. Það má búast við hörkuleik og strákarnir eiga það svo sannarlega skilið að við mætum og styðjum þá. Leikurinn hefst klukkan 19:15 en við bjóðum uppá grillaða hamborgara þannig að það er um að gera að mæta tímanlega og hafa gaman. Áfram KA!