Úrslitaleikur 4. flokks kvenna á Akureyrarvelli

Á fimmtudag verður stærsti leikur sumarsins á Akureyrarvelli. Þar mætast KA og Valur í úrslitaleik 4. flokks kvenna A-liða. KA hefur spilað 6 úrslitaleiki undanfarin 6 ár og hafa allir þessir leikir verið spilaðir fyrir sunnan fyrir utan einn sem var spilaður á Blönduósi en þá varð 3. flokkur karla Íslandsmeistari.


Þessi leikur er sjöundi úrslitaleikurinn á 7 árum sem KA tekur þátt í og loksins er spilað á Akureyri.

Stelpurnar sem spila eru nokkrar að spila úrslitaleik þriðja árið í röð. KA og Valur mættust einnig í úrslitum í 5. flokki kvenna fyrir 2 árum og voru það stelpurnar sem spila á fimmtudaginn kemur. Sá leikur fór fram á Vodafonevellinum (heimavelli Vals) þar sem Valsstelpur sigruðu 2-0.

4. flokkur kvenna tapaði í fyrra fyrir Breiðablik í úrslitaleik 4-0.

Nú er hinsvegar komið að því að okkar stelpur taki gullið. Allt er þegar þrennt er sagði vitur maður og við skulum bara trúa honum.

Mikilvægt er að KA fólk mæti á völlinn á fimmtudag kl 17.00 og styðji stelpurnar.