Umfjöllun: Þróttarar stálu sigrinum í lokin

Mynd/Sævar Geir
Mynd/Sævar Geir

KA beið í kvöld í lægra haldi fyrir Þrótturum í 1. deild karla í kvöld. Eina mark leiksins kom í lok leiksins þegar að Ragnar Pétursson skoraði af stuttu færi úr teignum.

KA 0 – 1 Þróttur R.

0 – 1 Ragnar Pétursson (’90)

Lið KA í dag:

Rajkovic, Hrannar Björn, Gauti, Karsten Vien, Baldvin, Edin, Davíð Rúnar, Jóhann, Hallgrímur Mar, Ævar Ingi og Arsenij.

Bekkur: Fannar, Gauti, Jón Heiðar, Gunnar Örvar, Kristján Freyr, Ólafur Aron og Bjarki Þór.

Skiptingar:

Davíð út – Gunnar Örvar inn (’70)

Arsenij út – Stefán Þór inn (’85)

Ein breyting var gerð á liðinu frá síðasta leik í Ólafsvík og kom Edin Beslija inn í byrjunarliðið í fyrsta sinn hjá KA í staðinn fyrir Stefán Þór sem tók sér sæti á bekknum. Fyrirliðin Atli Sveinn var fjarri góðu gamni í dag vegna meiðsla og því einhver bið á því að hann spili sinn 100. leik fyrir KA. Hallgrímur Mar bar fyrirliðabandið í hans stað.

Það var einstaklega vel mætt á leik kvöldsins og án vafa lang besta mætingin á leik hjá KA í sumar. Áhorfendur voru líka mættir tímanlega og hefur það ekki gerst í háa herrans tíð. Góð umgjörð hjá KA fyrir leik greinilega að skila sér í betri mætingu.

Leikurinn í kvöld hófst af krafti og var greinilegt að bæði lið ætluðu að gefa allt í þennan leik. Þróttarar voru öflugir í fyrri hálfleik og var framherji þeirra Matthew Eliason mjög sprækur og var duglegur að koma sér í færi. Rajko var hinsvegar alltaf vandanum vaxin og varði allt sem á markið kom.

Eftir ríflega hálftíma leik fékk KA aukaspyrnu töluvert fyrir utan teig og tók Hallgrímur Mar hana og var hún afskaplega föst og varði Trausti markvörður Þróttar boltann í stöngina og mátti engu muna að Hallgrímur kæmi KA yfir.

Aðeins örfáum andartökum síðar fengu gestirnir algjört dauðafæri þegar að áðurnefndur Matthew Eliason slapp einn í gegn en Rajko átti frábært úthlaup og varði meistaralega og bjargaði því að gestirnir tækju forystuna.

Skömmu fyrir hálfleik átti Jóhann Helgason sannkallaða neglu fyrir utan teig sem endaði í innanverðri stönginni. Nokkrum sentímetrum innar og boltinn hefði sungið í netinu. Staðan því markalaus í hálfleik.

Í síðari hálfleik færðist mikil harka í leikinn. Þóroddur Hjaltalín dómari leiksins leyfði mikið í fyrri hálfleik og dæmdi ekkert gult spjald en í þeim síðari var annað upp á teningnum og fóru spjöldin á loft í gríð og erg. 

Mjög umdeilt atvik átti sér stað á 53. mínútu þegar að Hallgrímur Mar var tæklaður mjög harkalega á miðjum vellinum og lá óvígur eftir og það varð hreinlega allt vitlaust inn á vellinum og miklar stimpingar milli manna. Því lauk með því að Karsten og Hallur fyrirliði Þróttara hlutu báðir gult en ekkert spjald dæmt á tæklinguna á Hallgrími.

Gestirnir í Þrótti komust upp með mikið peysutog og bakhrindingar í leiknum og fór það afskaplega mikið í taugarnar á KA liðinu sem voru hvað eftir annað stoppaðir í sóknum sínum.

Síðustu tíu mínútur leiksins voru mjög fjörlegar og ætluðu bæði liðin að krækja í öll stigin. Það var spilað endana milli og skiptust liðin á að sækja.  Þróttarar uppskáru svo mark þegar að uppbótartíminn var að hefjast. Þeir áttu þá góðan sprett upp hægri kantinn og var Ragnar Pétursson réttur maður á réttum stað þegar að hann fékk boltann í miðjum teignum og hamraði boltann í netið af stuttu færi.

Gífurlega svekkjandi fyrir KA að fá mark á sig í restina og mjög grátlegt að liðið hafi ekki fengið neitt út úr þessum leik. Gestirnir stálu sigrinum í lokin og eru í öðru og þriðja sæti deildarinnar ásamt Skagamönnum, fjórum stigum betur en KA.

KA-maður leiksins: Srdjan Rajkovic (Rajko átti flottan dag í marki KA í dag og bjargaði nokkrum sinnum meistaralega. Gat lítið gert í markinu og var besti maður KA í dag.)

Næsti leikur KA er miðvikudaginn 30. júlí þegar að liðið fer í Kórinn í Kópavogi og mætir Þorvaldi Örlygssyni og lærisveinum hans í HK. Hvetjum alla KA-menn á höfuðborgarsvæðinu að leggja leið sína á þann leik.