KA og HK mættust í kvöld á KA-vellinum í 3. umferð 1. deildar karla og fóru gestirnir með sigur af hólmi 1-2 eftir að KA leiddi í hálfleik 1-0.
KA 1 2 HK
1 0 Ævar Ingi Jóhannesson (39) Stoðsending: Atli Sveinn
1 1 Guðmundur Atli Steinþórsson (54)
1 2 Guðmundur Atli Steinþórsson (61)
Lið KA í dag:
Fannar
Baldvin Atli Sveinn Gauti Karsten
Hrannar Davíð Jóhann H
Ævar Arsenij Hallgrímur
Skiptingar:
Karsten út Jón Heiðar inn (33.mín)
Baldvin út Stefán Þór inn (73.mín)
Bekkur: Rajko, Ólafur, Jón, Stefán, Kristján, Bjarni og Bjarki.
Það var milt í veðri er málarinn Erlendur Eiríksson flautaði til leiks og aðstæður til knattspyrnu prýðilegar. Tvær breytingar voru gerðar á KA liðinu frá tapinu gegn Þrótti. Karsten Smith kom inn í liðið í sínum fyrsta leik fyrir KA í staðinn fyrir Bjarka Þór sem tók sér sæti á bekknum. Þáttaka Karsten var þó ekki löng þar sem hann fór meiddur af velli eftir aðeins 33. mínútur. Vonum að það sé ekki alvarlegt en hann virtist hafa tognað á læri. Davíð Rúnar kom svo inn í liðið í stað Orra sem var meiddur og var ekki með í dag.
KA hóf leikinn í dag af krafti og var greinilegt að liðið ætlaði að bæta fyrir framistöðuna gegn Þrótti í síðasta leik. Á 5. mínútu átti Davíð Rúnar hörku skot að marki eftir eina af mörgum hornspyrnum KA í fyrri hálfleik en markvörður HK varði vel frá markinu.
Gestirnir úr Kópavoginum voru þó líka hættulegir í upphafi leiks og átti Árni Arnarson tvær hættulegar tilraunir að marki KA.
Tíu mínútum síðar björguðu gestirnir á línu eftir skalla frá Atla Svein og fylgdi Arsenij í kjölfarið en markvörður HK varði vel. Eftir þetta voru KA meira með boltann án þess þó að fá einhver teljandi færi.
Skömmu fyrir hálfleik barst boltinn til Atla Sveins sem lék á einn varnarmann og gaf fyrir á Ævar inn í markteig sem sneiddi boltann laglega framhjá varnarmanni og markverði HK og kom KA yfir. Fátt markvert gerðist það sem eftir lifði fyrri hálfleiks og fór KA með eins marks forystu í hálfleikinn.
Í síðari hálfleik var hinsvegar allt annað upp á teningnum og mættu gestirnir úr Kópavogi mun ákveðnari til leiks. Þegar að síðari hálfleikur var tíu mínútna gamall átti Hörður Magnússon góðan sprett upp hægri kantinn og átti hnitmiðaða sendingu á Guðmund Atla Steinþórsson sem var einn og óvaldaður inn í teig og skaut góði skoti upp í hægra hornið á marki KA og staðann orðinn jöfn.
Við jöfnunarmarkið virtist eins og gestirnir fengju aukið sjálfstraust og gengu þeir svo sannarlega á lagið. Nokkrum mínútum síðar barst boltinn til Guðmundar Atla sem lék á varnarmann KA rétt fyrir utan teig og skaut bylmingskoti upp í bláhornið á marki KA og framhjá Fannari. Óverjandi fyrir Fannar og gestirnir komnir yfir 1-2.
KA liðið mætti varla til leiks í síðari hálfleik fyrr en á 67. mínútu þegar að Ævar fékk boltann inn í teig og reyndi skot að marki en varnarmaður HK fleygði sér fyrir boltann og bjargaði marki. Nokkrum mínútum síðar var brotið á Hallgrími innan teigs en ekkert dæmt. Vægast sagt umdeildur dómur þar sem Erlendur flautaði aukaspyrnu á brot andartaki seinna sem var fyrir utan teig fyrir mun minni sakir. Áfram hélt KA að sækja og var Arsenij hársbreidd frá því að jafna metin tíu mínútum síðar þegar að Ævar gaf á hann rétt fyrir utan teig en skot hans endaði rétt framhjá.
Lokamínúturnar reyndi KA allt hvað þeir gátu til að jafna metin en það vantaði töluvert upp á svo markið kæmi. Þriðji tapleikurinn í röð og liðið stigalaust eftir fyrstu 3. umferðir mótsins.
KA-maður leiksins: Davíð Rúnar Bjarnason ( Átti fínan leik á miðjunni í dag og var skástur leikmanna KA í dag. Mjög erfitt að velja mann leiksins að þessu sinni þar sem allt liðið lék undir eðlilegri getu í dag.)
Næsti leikur KA er þriðjudaginn 27. maí í Borgunarbikarnum gegn Fram. Leikurinn fer fram í Úlfarsárdal í Grafarholti á gervigrasvelli þeirra Framara og hefst kl. 17.30. Við hvetjum alla KA menn á höfuðborgarsvæðinu að leggja leið sína á völlinn og styðja liðið.