Umfjöllun: Tap gegn Grindavík í bragðdaufum leik

Mynd/Sævar Geir
Mynd/Sævar Geir

KA og Grindavík mættust í kvöld á Akureyrarvelli og lauk leiknum með 2-1 sigri gestanna úr Grindavík. Leikurinn fer seint í sögubækurnar fyrir skemmtanagildi sitt. Jóhann Helgason skoraði mark KA á 56. mínútu eftir hornspyrnu frá Grímsa.

KA 1 – 2 Grindavík

0 – 1 Tomislav Misura (’37)

1 – 1 Jóhann Helgason (’56) Stoðsending: Hallgrímur

1 – 2 Alex Freyr Hilmarsson (’69)

Lið KA í dag:

Rajkovic, Hrannar Björn, Atli Sveinn, Karsten Vien, Baldvin, Jóhann, Bjarki Þór, Hallgrímur Mar, Ævar Ingi, Arsenij og Stefán Þór.

Bekkur: Eggert Högni, Ívar , Davíð Rúnar, Jón Heiðar, Gunnar Örvar, Kristján Freyr og Ólafur Aron.

Skiptingar:

Bjarki út – Davíð inn (’80)

Ein breyting var gerð á KA liðinu frá 3-0 sigrinum á Haukum í síðustu umferð. Karsten kom inn fyrir Gauta sem var í banni vegna rauða spjaldsins gegn Haukum.

Leikurinn hófst á rólegu nótunum en gestirnir úr Grindavík voru ívið meira með boltann. KA tók síðan við keflinu en voru þó ekki að skapa sér nægilega góð færi.

Fyrri hálfleikurinn var svo vægt sé til orða tekið leiðinlegur. Lítið tempó og hvorugt liðina að sýna spari hliðarnar.

Grindvíkingar voru hinsvegar fyrri til að skora í kvöld og kom það mark á 37. mínútu er þeir sóttu upp hægri kantinn og upp að endalínu. Þar sem boltinn fór aftur fyrir endalínu en aðstoðardómari 1 flaggaði ekki og eftir mikið klafs inn í teig KA skreið boltinn yfir línuna. Mjög sérstakt atvik þar sem greinilegt var að boltinn fór útaf en dómarar leiksins sáu ekkert athugavert við það og markið látið standa. Eftir þetta fjaraði fyrri hálfleikurinn út og fóru gestirnir úr Grindavík með forystuna inn í hálfleik.

KA menn hófu seinni hálfleikinn af krafti og var greinilegt að liðið ætlaði sér að gera betur en í þeim fyrri enda fátt annað hægt eftir dapran fyrri hálfleik.

Á 56. mínútu bar stanslaus sókn KA árangur þegar að Hallgrímur Mar átti góða hornspyrnu sem Jóhann Helgason skallaði ofarlega í nærhornið. Stöngin inn og markið í takt við það sem hafði verið í gangi í upphafi síðari hálfleiks.

Rúmum tíu mínútum eftir markið komst Ævar Ingi svo nálægt því að koma KA yfir þegar að Stefán átti góðan sprett upp völlinn og gaf góða sendingu beint í hlaupalínu Ævars sem átti þó máttlaust skot að marki Grindavíkur.

Það var svo á 69. mínútu sem gestirnir úr Grindavík komust yfir á ný. Þar var að verki Alex Freyr Hilmarsson en boltinn var lagður fyrir fætur hans fyrir utan teig og þrumaði hann boltanum í vinstra hornið á markinu með viðstöðulausu skoti. Markið kom eins og þruma úr heiðskýru lofti og virtist slá KA liðið svolítið útaf laginu líkt og fyrra mark Grindvíkinga.

Í restina á leiknum sótti KA án afláts og var allt útlit fyrir að KA myndi jafna leikinn. En eitthvað vantaði upp á og virtist ekki vera nægur drifkraftur í sóknaraðgerðum KA manna undir lok leiks til að jafna leikinn. Fyrsta tap KA síðan 23. maí því staðreynd. Júní mánuður var KA liðinu góður þar sem liðið krækti í 13 af 15 stigum mögulegum. Júlí mánuður byrjar hinsvegar ekki vel en það er vonandi að strákarnir mæti dýrvitlausir í næsta leik til að kvitta fyrir framistöðuna í kvöld og sýna sitt rétta andlit.

KA-maður leiksins: Atli Sveinn Þórarinsson ( Var fastur fyrir í vörn KA í dag sem og alltaf og gat raunar lítið gert í mörkunum sem KA fékk á sig. Hann og Karsten áttu fínan leik í hjarta varnarinnar brutu oft niður sóknir Grindvíkinga. En það er morgunljóst að allir leikmenn KA áttu töluvert inni í dag og leikurinn því miður ekki nógu góður af okkar hálfu.)

Næsti leikur KA er einnig heimaleikur og er föstudaginn 11. júlí þegar að Selfyssingar koma í heimsókn. Við hvetjum alla að mæta á þann leik. Góður stuðningur er gulls í gildi og ómetanlegur fyrir strákana. Allir KA menn eru hér með hvattir til að mæta á næsta leik og láta í sér heyra.