Umfjöllun: Tap gegn Grindavík

Mynd / Sævar Geir
Mynd / Sævar Geir

KA tapaði gegn Grindvíkingum í 21. umferð 1. deildar karla í dag. Grindavík var 2-0 yfir í hálfleik og lauk leiknum með 1-3 sigri gestanna sem voru miklu sterkari í dag.

KA 1-3 Grindavík
0-1 Alex Freyr Hilmarsson (’30)
0-2 Angel Guirado Aldeguer (’39)
0-3 Óli Baldur Bjarnason (’92)
1-3 Sjálfsmark (’94) Stoðsending: Hrannar Björn

Lið KA:

Rajko, Hrannar Björn, Davíð Rúnar, Callum, Hilmar Trausti, Archie, Jóhann, Josip, Juraj, Ævar Ingi og Elfar Árni.

Bekkur: Aron Dagur, Baldvin, Halldór Hermann, Ólafur Aron, Pétur Heiðar, Ben og Bjarki Viðars.

Skiptingar:
Juraj út – Ben inn (’67)
Hilmar Trausti út – Pétur Heiðar inn (’73)

KA liðið hóf leikinn dag ólíkt flestum leikjum í sumar. Algjörlega á hælunum og slapp liðið með skrekkinn á fjórðu mínútu þegar Hákon Ívar Ólafsson komst óvænt einn inn fyrir vörnina en Rajko varði frá honum.

Eftir þetta sýndi KA liðið ágætar syrpur en vantaði þónokkuð upp á hjá liðinu og var liðið hugmyndasnautt í sóknarleiknum og gæði sendinga ákaflega léleg. Það kom svo algjörlega upp úr engu sem gestirnir úr Grindavík komust yfir. Sending aftur til baka á Rajko sem náði ekki að koma boltanum frá sér og Alex Freyr hirti boltann af honum og skoraði í autt markið.

Við markið virtust gestirnar fá byr undir báða vængi og fóru að sækja en meira og snarpar skyndisóknir þeirra héldu áfram. Aðeins nokkrum mínútum síðar átti Hákon Ívar góðan sprett upp vinstri kantinn og gaf fyrir á Angel Aldeguer sem skallaði boltann í netið á nærstöng. Staðan því 0-2 gestunum í vil og þannig var hún í hálfleik.

Í síðari hálfleik var eiginlega bara það sama upp á teningnum og í þeim fyrri. KA liðið virkaði afar andlaust og vantaði öll gæði í leik liðsins. Sóknarleikurinn var áfram hugmyndasnauður og lítil hreyfing á liðinu og liðið alltof aftarlega á vellinum á meðan gestirnir í Grindavík lágu þétt aftur á beittu hröðum skyndisóknum.

Ævar komst nálægt því að minnka muninn fyrir KA á 62. mínútu þegar að Juraj átti flotta sendingu inn fyrir á hann en fyrsta snerting Ævars var ekki nægilega góð og var hann kominn of nálægt markmanni gestanna þegar að hann lét skotið ríða af og varði markvörður þeirra það auðveldlega.

Það var svo í uppbótartíma þegar að gestirnir gerðu endanlega út um leikinn þegar að besti maður vallarins Alex Freyr Hilmarsson náði boltanum af Davíð í vörninni og gaf á Óla Baldur Bjarnason sem var einn gegn opnu marki og skoraði auðveldlega.

KA klóraði svo í bakkan á 95. mínútu þegar að Hrannar átti langa sendingu inn fyrir vörnina og Marko Stefánsson skallaði boltann í eigið net, stöngin inn. Lokatölur því 1-3 Grindvíkingum í vil. Fyrsta tap KA á heimavelli í sumar því staðreynd og sennilega lélegasta frammistaða liðsins í sumar.

Úrslit leiksins þýða það að KA fellur niður í 3.sæti deildarinnar og Þróttarar upp í 2. sætið á ný. Þróttur með 40 stig og eiga leik til góða á þriðjudaginn gegn Haukum. KA er í því þriðja með 38 stig jafn mörg og Þór sem er í því fjórða.

KA-maður leiksins: Josip Serdarusic (Mjög erfitt að velja KA-mann leiksins í dag þar sem allir leikmenn KA áttu ákaflega dapran dag. Josip var ágætur. Allir leikmenn liðsins geta mun betur en þetta og frammistaða dagsins ekki til útflutnings og ótrúleg vonbrigði í jafn mikilvægum leik sem þessum.)

Næsti leikur KA og jafnframt lokaleikur þessa tímabils verður stórleikur gegn grönnum okkar í Þór. Leikurinn er næstkomandi laugardag 19. september á heimavelli Þórs og hefst hann kl. 14:00.