Selfoss 0-1 KA
0-1 Hallgrímur Mar Steingrímsson (vsp) 16. mín
Vel var mætt á völlinn af KA mönnum á höfuðborgarsvæðinu og létu þeir vel í sér heyra og janfvel meira en heimamenn sem voru þó töluvert fleiri.
Það voru KA menn sem byrjuðu betur í leiknum í dag en virtust ljósbláir búningar þeirra veita liðinu aukið sjálfstraust, enda
meistaralitur. KA stillti upp sterku varnarliði með þá Atla Svein Þórarinsson og Ivan Dragcevic í miðverði. Þetta miðvarðarpar
verður sennilega eitt það sterkasta á landinu í sumar en vega þeir hvorn annan gríðarlega upp. Ivan virkar grimmur og er ófeiminn að henda
sér í hörku tæklingar, enda var hann kominn með gult spjald og tvö tiltöl í fyrri hálfleik í dag. Við hliðina á honum var
fyrirliðinn, Atli Sveinn, sem er góðmennskan uppmáluð en eins harður og nauðsyn krefur. Saman hafa þeir hreinsað svona 100 bolta úr vörninni
í dag, eins og sönnur miðvörðum sæmir.
KA hafði verið meira með boltann þegar á 15. mínútu kemur kross fyrir markið, frá hægri. Boltinn stefndi beint á pönnuna á
Atla Svein sem hafði hætt sér inn í teig andstæðinganna en þá var hann keyrður í jörðina og góður dómari leiksins,
Gunnar Jarl Jónsson, dæmdi vítaspyrnu. Hallgrímur Húsvíkingur steig á punktinn og skoraði af miklu öryggi á mitt markið.
KA menn héldu áfram að vera meira með boltann og munaði litlu að Carsten Pedersen mætti við marki á 26. mínútu þegar hann slapp einn
í gegn en markvörður Selfyssinga var vel á verði. Við þessa marktilraun meiddist Carsten og þurfti að fara útaf. Inná kom Gunnar
Örvar Stefánsson. Þegar tæplega 10 mínútur voru eftir af fyrri hálfleik í blíðunni á Selfossi, fóru heimamenn loks að
sýna lífsmark og héldu boltanum vel, án þess þó að skapa sér færi. Staðan í hálfleik því 1-0,
verðskuldað.
KA hóf leikinn í síðari hálfleik af miklum krafti og réðu lögum og lofum lengi vel. Þeir fóru hinsvegar að bakka niður, full
snemma að mati undirritaðar, og hófu Selfyssingar að sækja. Besta færi þeirra kom um miðjan síðari hálfleikinn þegar að
leikmaður þeirra fékk fríaan skalla inn á markteig KA en yfir fór boltinn.
Leikurinn var frekar bragðdaufur og lítið um opin færi en KA fékk mjög gott færi þegar rúmar 10 mínútur voru eftir. Þá
prjónaði Bjarki Baldvinsson sig í gegn og gaf fyrir markið, þar sem Gunnar Örvar fékk boltann en náði ekki nægilega góðu skoti
á opið markið og björguðu Selfyssingar á línu. Þrátt fyrir að forysta KA væri ekki nema eitt mark var maður aldrei smeykur um að
Selfyssingar myndu skora. Þeir komust nánast aldrei inn í teig KA og þegar þeir gerðu það var Sandor vel á verði.
Leikurinn fjaraði út og 1-0 sigur KA-manna sanngjörn niðurstaða. KA-liðið lék vel í dag, þá sérstaklega varnarlínann. Atli
Sveinn og Ivan virðast ná vel saman í öftustu línu og er mikill fengur að hafa krækt í Ivan, svona stuttu fyrir mót. Darren Lough og Ómar
voru góðir í bakvarðarstöðunni og þá var Mads Rosenberg einnig duglegur á miðjunni.
Tiltölulega lítið kom út úr sókinni í dag, enda ekki á hverjum degi sem menn mæta á Selfoss til að sækja stíft, enda
voru þeir í deild þeirra bestu í fyrra og með fínt lið. Það er þó ekkert út á menn að setja, þeir
börðust og reyndu hvað þeir gátu. Föst leikatriði sköpuðu oftast hættu hjá KA og áttu Selfyssingar oft og tíðum í
vök að verjast þegar KA fékk aukaspyrnu eða horn.
Jakob Hafsteinsson átti flotta innkomu í KA liðið undir lok leiksins og var duglegur á hægri kanntinum, sem og Davíð Rúnar var flottur þegar
hann kom inn undir lok leiks.
Þegar allt er tekið til er frábært að hafa sótt þrjú stig á Selfoss, í frábærum knattspyrnuaðstæðum 9.
maí árið 2013.
Lið KA. Einkunnargjöf:
Sandor - 7 (Öruggur í sínum aðgerðum, lítið sem á hann reyndi)
Ómar Friðriksson - 7 (Átti fínan leik, en var örlítið óöruggur varnarlega)
Atli Sveinn - 8 (Frábær í dag. Steig vart feilspor) Maður leiksins.
Ivan - 7 (Flottur fyrsti leikur hjá þessari vél. Var eins og mulningsvél í vörninni)
Darren Lough - 7 (Var flottur varnarlega, enn betri sóknarlega)
Mads Rosenberg - 6 (Nokkrar feilsendingar, en var duglegur og barðist. Ekki góður fram á við, flottur til baka)
Brian Gilmour - 6 (Hefur átt betri leiki. Býr meira í honum en fékk reyndar úr litlu að moða. Var þó grimmur og stjórnaði spilinu vel)
Bjarki Baldvinsson - 7 (Hljóp mikið, pressaði stíft og vann vel)
Hallgrímur Mar - 7 (Skoraði eina mark KA, reyndi mikið en hefði mátt vera duglegri að láta bara vaða á markið þegar færi gafst)
Ævar Ingi - 6 (Var eins og elding upp og niður kantinn. Komst þó lítið áfram enda sterkasti varnarmaður Selfyssinga gegn honum)
Carsten Pedersen (meiddist of snemma til að gefa einkun)
Gunnar Örvar - 6 (Var duglegur og ógnandi en maður vill alltaf sjá sentera skora mörk. Hann á nóg inni og er klárlega tilbúinn í þessa deild)
-Siguróli Sigurðsson
Svo minnum við að lokum á Herrakvöld KA á morgun en miðaverð verður 4.990 og verður hægt að kaupa miða í KA-heimilinu á morgun og einnig við dyrnar á Hlíðarbæ en húsið opnar klukkan 19:00 og áætlað er að borðhald hefjist klukkan 19:45. Veislustjóri verður hinn eiturflotti Andrés "Dredzman" Vilhjálmsson sem er eins og auglýsingin sýnir, klár í slaginn!