KA og KV áttust við á Akureyrarvelli í dag í fjörlegum leik þar sem hvorki meira né minna en 8 mörk voru skoruð. Staðan í hálfleik var 3-1 KA í vil og lauk leiknum með 5-3 sigri KA.
KA 5 3 KV
1 0 Stefán Þór Pálsson (24) Stoðsending: Baldvin Ólafsson
2 0 Hallgrímur Mar Steingrímsson (32) Stoðsending: Ævar
2 1 Magnús Bernhard Gíslason (43)
3 1 Jóhann Helgason (44) Stoðsending: Baldvin
4 1 Ævar Ingi Jóhannesson (51) Stoðsending: Stefán
4 2 Kristófer Eggertsson (75)
4 3 Tómas Agnarsson (90)
5 3 Ævar Ingi Jóhannesson (94) Stoðsending: Grímsi
Lið KA í dag:
Rajko, Hrannar, Atli, Gauti, Baldvin, Jóhann, Davíð, Bjarki, Hallgrímur, Ævar og Stefán.
Bekkur: Aron Ingi, Karsten, Jón, Kristján, Sveinn, Ólafur, Úlfar.
Skiptingar:
Baldvin út Karsten inn (46)
Bjarki út Kristján inn (79)
Um var að ræða fyrsta leik sumarsins sem leikinn var á Akureyrarvelli og jafnframt fyrsta heimaleik KA sem leikinn var á grasi.
Ein breyting var gerð á byrjunarliði KA frá sigrinum á Ísafirðirði og var hún óumflýjanleg. Davíð Rúnar kom inn í liðið fyrir Arsenij sem var í leikbanni eftir rauða spjaldið gegn BÍ/Bolungarvík.
Leikurinn í dag hófst heldur rólega og voru bæði liðin að þreyfa fyrir sér fyrstu mínútur leiksins. Gestirnir úr Vesturbænum byrjuðu af krafti og slapp Gunnar Kristjánsson einn í gegn eftir 10 mínútna leik en Rajko varði slakt skot hans auðveldlega.
Eftir það var leikurinn eign KA-manna. Á 20. mínútu var Bjarki Þór nálægt því að skora eftir að markvörður KV missti fyrirgjöf Ævars út í teigin en markvörður KV varði vel.
Fimm mínútum síðar kom fyrsta markið. Baldvin Ólafsson átti þá góða fyrirgjöf á Stefán Þór Pálsson sem skoraði með skalla úr þröngu færi. Verðskulduð forysta. Eftir markið jókst sóknarþungi KA til muna. KV voru til að mynda stálheppnir að fá ekki dæmda á sig vítaspyrnu eftir að varnarmaður þeirra handlék boltann innan teigs en dómari leiksins dæmdi ekkert.
Örfáum mínútum síðar varð KA hinsvegar að ósk sinni um vítaspyrnu er Ævar var felldur innan teigs af varnarmanni KV og réttilega dæmd vítaspyrna. Á punktinn steig Hallgrímur Mar og skoraði auðveldlega úr spyrnunni. Markvörðurinn í vitlaust horn.
Gestirnir úr Vesturbænum hresstust hinsvegar við markið og uppskáru mark rétt fyrir hálfleik þegar að Magnús Bernhard skoraði með skalla eftir hornspyrnu. KV voru hættulegir í föstum leikatriðum í leiknum.
KA voru ekki lengi að svara. Tóku miðjuna brunuðu upp og Baldvin átti góða fyrirgjöf með vinstri fæti á Jóhann Helgason sem stakk sér framfyrir varnarmann KV stangaði boltann í netið. Laglega gert hjá KA. Staðan því 3-1 í hálfleik.
KA hóf síðari hálfleikinn af sama krafti og í fyrri hálfleik. Á 51. mínútu átti Hallgrímur góða sendingu inn fyrir á Stefán sem lék á markvörður KV og gaf á Ævar í miðjum teignum sem skaut hnitmiðuðu skoti framhjá tveimur varnarmönnum KV og í netið. Staðan því 4-1 og KA komið í þægilega stöðu.
Svo virtist samt vera að KA væru of meðvitaðir um þessa þægilegu stöðu og slökuðu full mikið á í síðari hálfleik.
KV sóttu mun meira eftir að KA komst í 4-1 og uppskáru þeir verðskuldað mark á 75. mínútu leiksins þegar að Kristófer Eggertsson skoraði af stuttu færi úr teignum.
Á 90. mínútu minnkuðu svo gestirnir muninn í 4-3 þegar að fyrirliði þeirra Tómas Agnarsson skoraði með hjólhestaspyrnu eftir mikinn darraðardans í teig KA.
Við þetta mark vaknaði KA liðið hinsvegar loksins til lífsins af værum blundi. Hallgrímur átti þá góða sendingu á Ævar sem lék á markvörð KV og skoraði af öryggi í tómt markið og innsiglaði sigurinn. Dómari leiksins flautaði svo leikinn af nokkrum sekúndum síðar.
Flottur sigur KA í stórskemmtilegum fótboltaleik. Frábær fyrri hálfleikur en sá síðari ekki alveg jafn góður og tók værukærðin yfir og hleypti liðið KV inn í leikinn. En áhorfendur á Akureyrarvelli fengu svo sannarlega eitthvað fyrir pening í dag. 8 mörk og fullt af færum.
KA-maður leiksins: Stefán Þór Pálsson ( Átti frábæran leik skoraði eitt mark og gaf eina stoðsendingu. Var síógnandi og ávallt hættulegur með boltann. Barðist vel og var iðinn að skapa fyrir samherja sína.) Ævar Ingi var einnig stórkostlegur og stóð valið milli þeirra tveggja um mann leiksins. Skoraði tvö flott mörk og gaf eina stoðsendingu og barðist eins og ljón. Ætti eiginlega að velja þá báða menn leiksins.
Næsti leikur KA er á föstudaginn næstkomandi á útivelli gegn Haukum. Þann 27. júní kl. 18.15. Næsti heimaleikur er svo 2. júlí þegar að Grindavík koma í heimsókn.