KA og Fjarðabyggð mættust í gærkvöldi á Akureyrarvelli í 13. umferð 1.deildar. KA leiddi í hálfleik 1-0 og síðari hálfleik skoruðu bæði liðin sitthvort markið og niðurstaðan því 2-1 sigur KA.
KA 2 1 Fjarðabyggð
1 0 Ben Everson (14) Stoðsending: Halldór Hermann
2 0 Elfar Árni Aðalsteinsson (49) Stoðsending: Ævar Ingi
2 1 Ólafur Örn Eyjólfsson (91)
Lið KA:
Rajko, Hrannar Björn, Davíð Rúnar, Callum, Ívar Örn, Archie, Jóhann, Halldór Hermann, Ævar Ingi, Elfar Árni og Ben.
Bekkur: Fannar Hafsteins, Ólafur Aron, Sveinn Helgi, Ívar Sigurbjörns, Josip Serdarusic og Bjarki Viðars.
Skiptingar:
Archange út Ólafur Aron inn (67)
Jóhann Helga út Josip inn (67)
Ævar Ingi út Ívar Sigurbjörns inn (91)
Aðstæður til knattspyrnuiðkunnar voru hinar ágætustu í gærkvöldi er KA tók á móti Fjarðabyggð í 13. umferð 1. deildar karla. Leikurinn var báðum liðum afar mikilvægur í baráttunni sem framundan er í efri hluta deildarinnar.
Fyrstu mínútur leiksins einkenndust af mikilli baráttu og voru bæði lið að þreifa fyrir sér. Gestirnir sýndu aðeins meira frumkvæði til að byrja með en þeir léku með vindi í fyrri hálfleik. KA voru hinsvegar skeinuhættir í hröðum sóknum upp völlinn og bar ein slík árangur á 14. mínútu leiksins þegar að Ævar átti góðan sprett upp hægri kantinn og kom boltanum fyrir á Halldór Hermann sem lagði boltann fyrir fætur Ben sem var fyrir utan teig Fjarðabyggðar og þar átti Ben skot að marki sem lak undir markvörð gestanna og KA-menn búnir að brjóta ísinn, 1-0.
Svo virtist sem markið hefði slegið gestina alveg út af laginu því sóknarþungi okkar manna þyngdist töluvert eftir markið og vantaði bara upp á að sendingar KA-manna á síðasta þriðjungi vallarins væru nákvæmari svo forystan yrði meiri er liðin gengu til búningsherbergja.
Fjarðabyggð áttu hinsvegar lang hættulegasta færi fyrri hálfleiksins þegar að Viðar Þór Sigurðsson skaut boltanum í þverslá í baráttu við varnarmenn KA í teignum. Boltinn rataði síðan í kjölfarið til gestanna sem áttu hörku skot að marki af stuttu færi en Rajko varði það vel. Gestirnir óheppnir að skora ekki jöfnunarmarkið þarna og fóru okkar menn því með 1-0 forystu til hálfleiks.
Í undanförnum leikjum hefur það verið viðloðandi KA liðið að mæta ekki nægilega beittir til síðari hálfleiks og andstæðingar tekið frumkvæðið. En að þessu sinni voru okkar menn staðráðnir að það skildi ekki koma fyrir. KA liðið mætti í síðari hálfleikinn af miklum krafti og var bara tímaspursmál hvenær liðið myndi bæta við forystuna.
Á 49. Mínútu átti Ævar Ingi fyrirgjöf frá hægri sem varnarmenn Fjarðabyggðar náðu ekki að hreinsa og Elfar Árni var klókur og fljótur að átta sig og skaut hnitmiðu skoti framhjá markverði gestanna úr teignum og kom KA 2-0 yfir.
Eftir seinna mark KA róaðist leikurinn töluvert og gerðist raunar fátt markvert það sem eftir lifði leiks. Gestirnir í Fjarðabyggð ógnuðu mjög lítið marki KA-manna og virtist sem KA væri að sigla öruggum 2-0 sigri heim. Allt þar til komið var í uppbótartíma þegar að Víkingur Pálmason átti fyrirgjöf frá vinstri kannti sem varamaðurinn Ólafur Örn Eyjólfsson skallaði í markið yfir Rajko.
Markið frá gestunum kom hinsvegar alltof seint og stuttu síðar flautaði Guðmundur Ársæll dómari leiksins til leiksloka og sanngjarn og sannfærandi sigur KA staðreynd.
Leikur KA liðsins í gær var ekki sá besti í sumar en sigurinn var hinsvegar aldrei í hættu og mikilvæg þrjú stig í hús fyrir baráttuna sem framundan er kærkominn og allt annað í rauninni auka atriði.
KA-maður leiksins: Ben Everson (Barðist vel í dag og var kröftugur. Opnaði markareikning sinn í deildinni hjá KA sem er vel.) Halldór Hermann átti einnig flottan dag á miðjunni sem og Elfar Árni og Ævar í fremstu víglínu sem tengdu mjög vel saman sem endranær.
Næsti leikur KA er af dýrari gerðinni en það er undanúrslitaleikur í Borgunarbikarnum á miðvikudaginn næstkomandi 29. Júlí kl. 18:00 gegn Val á Akureyrarvelli. Við hvetjum alla KA-menn að taka daginn frá og gera sér ferð á völlinn og styðja hraustlega við bakið á liðinu. Þetta er leikur sem enginn vill missa af.
Áfram KA!