KA og Selfoss mættust í kvöld á Akureyrarvelli og lauk leiknum með 2-0 sigri KA. Sigurinn var verðskuldaður og voru KA menn töluvert betri aðilin í leiknum. Þéttir til baka og mjög beittir fram á við.
KA 2 0 Selfoss
1 0 Arsenij Buinickij (34) Stoðsending: Ævar
2 0 Arsenij Buinickij (36) Stoðsending: Jóhann
Lið KA í dag:
Rajkovic, Hrannar Björn, Atli Svein, Karsten Vien, Baldvin, Jóhann, Davíð Rúnar, Hallgrímur Mar, Ævar Ingi, Arsenij og Stefán Þór.
Bekkur: Eggert Högni, Gauti, Jón Heiðar, Gunnar Örvar, Kristján Freyr, Ólafur Aron og Bjarki Þór.
Skiptingar:
Stefán út Bjarki inn (72)
Arsenij út Gunnar Örvar inn (83)
Jóhann út Ólafur Aron inn (91)
Ein breyting var gerð á byrjunarliðinu frá tapinu gegn Grindavík í síðustu umferð. Davíð Rúnar kom inn á miðjuna í stað Bjarka sem tók sér sæti á bekknum.
Á flautunni í kvöld var erlendur dómari að nafni Lee Swabey. Hin rauðbirkni dómari leiksins frá Bretlandseyjum var mikið í mun að hefja leikinn á réttum tíma og hófst leikurinn þremur mínútum fyrir áætlaðan leiktíma. Nokkrum áhorfendum til mikillar gremju.
Þessar þrjár mínútur sem einhverjir áhorfendur misstu af voru ekki markverðar en Lee nokkur Swabey var eflaust bara að leggja sitt að mörkum til að fá áhorfendur til að mæta fyrr á völlinn. En það er algent vandamál á íslenskum knattspyrnuleikjum.
En nóg um dómarann og að leiknum. Engu mátti muna að KA kæmist yfir eftir aðeins 20 sekúndur þegar að Arsenij nýtti sér slaka sendingu frá Vigni markverði gestanna sem rataði beint á hann rétt fyrir utan teig en skot Arsenij hárfínt yfir. Næst dróg ekki til tíðinda fyrr en gestirnir áttu gott spil í gegnum vörn KA og fékk Haukur Ingi Gunnarsson boltann einn á auðum sjó beint fyrir framan markið en skot hans ekki nægilega gott og var beint á Rajko sem varði boltann vel.
Fátt annað markvert gerðist í leiknum fyrsta hálftíman og leit allt út fyrir að fyrri hálfleikurinn myndi bara fjara út og liðin færu jöfn inn til hálfleiks en annað kom á daginn.
Á 34. mínútu átti Ævar Ingi laglega sendingu inn fyrir vörn Selfyssinga á Arsenij sem var í þröngu færi en náði að koma hörku skoti að marki sem Vignir í marki Selfyssinga varði út í teig þar sem Arsenij fylgdi skoti sínu eftir með hnitmiðuðu skoti upp í þaknetið.
Aðeins örfáum andartökum síðar vann Jóhann Helgason boltann af varnarmanni Selfoss á miðjum vellinum og gaf fram á Arsenij sem lék á Andy Pew fyrirliða gestanna og afgreiddi boltann með vippu yfir Vigni í markinu og kom KA í 2-0. Arsenij afar yfirvegaður í báðum færunum og mjög vel klárað hjá honum.
Fátt markvert gerðist það sem eftir lifði fyrri hálfleiks og staðan því 2-0 KA í vil í hálfleik.
Þjálfari Selfyssinga, Gunnar Guðmundsson virtist ekki hafa komið skilaboðum sínum nægilega vel til skila inn í búningsklefa því hann tók seinni part hálfleiks ræðunnar út á miðjum velli og reyndi að stappa stáli í sína menn líkt og Phil Brown fyrrum knattspyrnustjóri Hull City gerði á sínum tíma. Afar skemmtileg uppákoma.
Síðari hálfleikur var í rólegri kantinum en KA voru sem fyrr sterkari aðilin. Selfyssingum gekk illa að brjóta niður varnarmúr KA og var Rajko öruggur í öllum sínum aðgerðum fyrir aftan í markinu.
Á 52. mínútu slapp Arsenij einn inn í gegnum vörn gestanna eftir góða sendingu frá Hallgrími en skot Arsenij var ekki nægilega gott og varði Vignir í marki gestanna það auðveldlega.
KA voru mun líklegri til að bæta við í síðari hálfleik heldur en gestirnir frá Suðurlandinu. Á 73. mínútu var Jóhann Helgason líklegur til að skora þriðja mark KA með skoti fyrir utan teig en skot hans skoppaði rétt framhjá markinu. KA áttu síðan nokkur ágætis færi undir restina en inn vildi boltinn ekki og sanngjarn 2-0 sigur því staðreynd.
KA-maður leiksins: Arsenij Buinickij ( Skoraði bæði mörk KA í dag og gerði það af mikilli snilld. Arsenij reynst KA mjög vel í sumar og sýndi í kvöld að hann er afbragðs sóknarmaður sem getur klárað færi af yfirvegun.) Allt liðið átti hinsvegar góðan leik og varðist mjög vel í leiknum. Aftasta varnarlínan og Rajko lokuðu sjoppunni eftir rúmar 20 mínútur og voru gestirnir aldrei líklegir eftir það.
Næsti leikur KA er af stærri gerðinni en þá fara okkar menn upp á Skipaskaga og mæta Gulla Jóns og félögum sem hafa verið í fantaformi í sumar. Sá leikur er á þriðjudaginn næsta kl. 19.15 og verður sýndur á SportTV. Það verður afar verðugt verkefni. Áfram KA!