KA og Leiknir frá Reykjavík gerðu í dag markalaust jafntefli en leikurinn var engu síður langt frá því að vera leiðinlegur. KA átti meðal annars skot í slá og stöng og gestirnir einnig sláarskot. Magnús Már Einarsson í liði gestanna fékk að líta rauða spjaldið á 63. mínútu.
KA 0 0 Leiknir R.
0 0 Magnús Már Einarsson Rautt spjald (63)
Lið KA í dag:
Fannar, Kristján, Atli Sveinn, Gauti, Baldvin, Jóhann, Bjarki, Hrannar, Hallgrímur, Ævar og Arsenij.
Bekkur: Rajko, Ólafur Hrafn, Davíð Rúnar, Jón Heiðar, Stefán, Ólafur Aron og Úlfar.
Skiptingar:
Fannar út Rajkovic inn (8)
Hrannar út Stefán inn (75)
Kristján út Úlfar inn (86)
Þrjár breytingar voru gerðar á byrjunarliðinu frá sigrinum á Tindastól á fimmtudaginn. Fannar kom inn í markið fyrir Rajko. Ævar Ingi kom einnig inn í liðið fyrir Stefán sem átti við smávægileg meiðsl að etja. Bjarki Viðars kom svo inn á miðjuna fyrir Bjarna Mark sem fótbrotnaði í leiknum á finmtudaginn og verður frá í töluverðan tíma.
Leikurinn hófst eilítið seinna en áætlað var sökum þess að Fannar var ekki samlitum undirbúning við markmannsbúning sinn reglum samkvæmt og varð að skipta um undir treyju. Eftir nokkurra mínútna bið gat leikurinn loksins hafist.
Eftir einungis þriggja mínútna leik komst Leiknismaðurinn Sindri Björnsson í ákjósanlegt færi en Fannar varði vel en meiddist í kjölfarið á ökkla og lá óvígur eftir. Langt hlé var gert á leiknum til að hlúa að Fannari og var sjúkrabíll að lokum kallaður á staðinn og Fannar fluttur með honum. Rajkovic kom í markið í hans stað. Vonum að þetta hafi ekki verið alvarlegt og Fannar verði fljótur að jafna sig.
Gestirnir úr Breiðholtinu voru töluvert sterkari fyrstu 25 mínútur leiksins og höfðu varnarmenn KA og Rajko í nægu að snúast. Leiknismenn áttu tvö hörku færi með stuttu milli bili. Fyrst eftir langt innkast þar sem boltinn fór af Hrannari og í átt að markinu en Rajko varði vel í horn. Í seinna færinu fékk Sindri Björnsson boltann inn í markteig og tókst á einhvern óskiljanlegan hátt að skjóta boltanum í slánna af stuttu færi.
Við sláarskotið var eins og KA liðið hafi vaknað til lífsins. Hallgrímur Mar átti góðan sprett upp völlinn skömmu síðar og var felldur innan teigs af varnarmanni Leiknis og vildi vítaspyrnu en ekkert dæmt. Gestirnir voru þó ávallt hættulegir í föstum leikatriðum og mátti engu muna að Sævar Freyr Alexandersson kæmi þeim yfir eftir góða aukaspyrnu frá Óttari fyrirliða þeirra.
Í uppbótartíma fyrri hálfleiks áttu Hrannar og Arsenij gott spil sem lauk með því að Ævar fékk boltann rétt fyrir utan teig og skaut flottu skoti í innanverða stöngina og voru heilladísirnar aldeilis með Leikni þá. Inn vildi boltinn ekki og staðan því 0-0 í hálfleik.
KA menn hófu síðari hálfleikinn eins og þeir enduðu þann fyrri, af miklum krafti og var Arsenij duglegur að koma sér í færi en illa gekk að nýta þau. Gestirnir voru aðeins meira með boltann en KA voru hættulegir í skyndisóknum sínum. Á 61. mínútu átti Kristján góða fyrirgjöf á Ævar sem skallaði í þverslánna.
Stuttu seinna gerðist umdeilt atvik þegar að Gauti og Magnús Már hjá Leikni fóru upp í skallabolta og fór Magnús heldur ofarlega með olnbogan á loft í andlit Gauta sem lá óvígur eftir. Þóroddur Hjaltalín vísaði Magnúsi útaf með rautt spjald og þáttaka hans því ekki löng í leiknum en hann hafði komið inn á sem varamaður mínútu áður.
KA átti tvö stórhættuleg færi síðasta korter leiksins sem hefðu átt að gera út um leikinn. Það fyrra kom eftir frábæra sendingu frá fyrirliðanum Atla Svein inn fyrir á Arsenij sem slapp einn í gegn en besti maður vallarins Eyjólfur Tómasson í marki Leiknis varði meistaralega í horn. Þegar að ein mínútu var eftir af venjulegum leiktíma slapp Arsenij aftur í gegn nú eftir góða sendingu frá Jóa Helga og var hann klaufi að láta Eyjólf verja frá sér aftur. Þarna hefði Arsenij átt að gera betur og klára leikinn.
Eftir þetta reyndu bæði lið hvað þau gátu til að stela sigrinum en niðurstaðan markalaust jafntefli. Það fyrsta í 1.deildinni í sumar. KA liðið lék vel í leiknum og vantaði bara herslumuninn að liðið næði í öll þrjú stigin. Færanýtingin var ekki sú besta í dag og reyndist það dýrkeypt. Gestirnir úr Breiðholti voru hinsvegar afar sprækir og gáfu ekkert eftir þrátt fyrir að vera manni færri í rúman hálftíma. Hörku leikur þrátt fyrir markaleysi.
KA-maður leiksins: Bjarki Þór Viðarsson ( Var feikna góður á miðjunni hjá KA í dag. Öruggur í sínum aðgerðum og sinnti sóknar- og varnarvinnu af prýði.) Einnig átti Rajko flottan leik í markinu og hélt hreinu annan leikinn í röð. Gauti og Atli voru líka flottir í miðju varnarinnar.
Næsti leikur KA er laugardaginn 14. júní þegar að liðið fer á Ísafjörð og mætir BÍ/Bolungarvík. Næsti heimaleikur KA verður svo 21. júní niðri á Akureyrarvelli þegar að Knattspyrnufélag Vesturbæjar kemur í heimsókn.