Umfjöllun: Frábær 0-3 sigur á Þór

Mynd / Þórir Tryggva.
Mynd / Þórir Tryggva.

KA mætti Þór í lokaumferð 1.deildar karla í dag á Þórsvelli. Leiknum lauk með öruggum 0-3 sigri okkar manna. Staðan í hálfleik var 0-1 fyrir KA.

Þór 0 – 3 KA
0 – 1 Sjálfsmark mótherja (’25) Stoðsending: Elfar Árni.
0 – 2 Ben Everson (’48) Stoðsending: Elfar Árni
0 – 3 Sjálfsmark mótherja (’79) Stoðsending: Josip

Lið KA í dag:
Rajko, Hrannar Björn, Davíð Rúnar, Ívar Örn, Hilmar Trausti, Archie, Jói Helga, Halldór Hermann, Josip, Ben og Elfar Árni.

Bekkur: Eggert Högni, Baldvin, Ólafur Aron, Pétur Heiðar, Sveinn Helgi, Ívar Sigurbjörns og Bjarki Viðars.

Skiptingar:
Hilmar Trausti út – Baldvin inn (’67)
Ben Everson út – Bjarki Viðars inn (’76)
Halldór Hermann út – Ólafur Aron inn (’80)

Það voru heimamenn í Þór sem hófu leikinn mikið mun betur í dag og óðu hreinlega í færum í upphafi leiks. Minnstu mátti muna þegar Rajko varði skalla frá Þórði Steinari úr markteig og þegar að skot Jónasar Björgvins endaði í markslánni.

KA menn sóttu hinsvegar í sig veðrið og náðu áttum. Föst leikatriði sköpuðu mikinn usla við mark Þórsara. Á 25. mínútu átti Hilmar Trausti aukaspyrnu frá miðju sem rataði á Elfar Árna sem var í baráttu við Sandor Matus og lauk baráttu þeirra með því að boltinn hrökk af Sandor og í netið. Staðan því 0-1 fyrir KA, í rauninni þvert gegn gangi leiksins.

Eftir markið var spilamennska KA liðsins mun betri og náði liðið að halda boltanum aðeins innan liðsins og skapa sér nokkur hálffæri. Fátt markvert gerðist það sem eftir lifði fyrri hálfleiks og fóru okkar menn því með 0-1 forystu til hálfleiks.

Síðari hálfleikur hófst frábærlega fyrir okkur KA menn þegar Elfar Árni renndi boltanum inn fyrir á Ben sem hafði átt gott hlaup í snarpri skyndisókn KA og renndi boltanum snyrtilega framhjá Sandor í marki Þórs og staðan orðinn 0-2.

Töluvert jafnræði var með liðunum næstu mínútur og baráttan í fyrirrúmi eðli málsins samkvæmt. Á 60. mínútu fékk Jóhann Helgi leikmaður Þórs að líta rauða spjaldið fyrir hættulegt brot á Ívari Erni. Hárréttur dómur og Ívar heppinn að meiðslin urðu ekki alvarlegri.

Á 78. mínútu juku okkar menn síðan forystuna í 0-3 þegar Josip átti hornspyrnu sem Sveinn Elías leikmaður Þórs varð fyrir því óláni að skalla í eigið mark. Mínútu síðar fékk síðan Jónas Björgvin, leikmaður Þórs sitt annað gula spjald og þar með rautt og heimamenn því tveimur leikmönnum færri síðustu tíu mínútur leiks.

Það kom hinsvegar ekki að sök og fjaraði leikurinn nánast út eftir þetta og 0-3 sigur KA á Þór því staðreynd. Flottur endir á leiktímabilinu og ánægjulegt að ljúka því með öruggum sigri. Hinsvegar svekkjandi að markmið sumarsins hafi ekki náðst og mæta menn því bara sterkari til leiks í vor og gera enn betur.

KA-maður leiksins: Archange Nkumu (var kóngur í ríki sínu á miðjunni eins og svo oft áður í sumar). Síðan átti öll vörnin og Rajko mjög góðan dag og voru ákaflega öruggir.