KA og Magni mættust í kvöld á KA-vellinum í 2. umferð Borgunarbikarsins. KA vann nokkuð þægilegan sigur og var staðan 5-0 í hálfleik. KA bætti svo tveimur mörkum við í síðari hálfleik og lokatölur því 7-0.
KA 7 0 Magni
1 0 Ævar Ingi Jóhannesson (16) Stoðsending: Orri G
2 0 Ævar Ingi Jóhannesson (20) Stoðsending: Jói Helga
3 0 Atli Sveinn Þórarinnsson (34) Stoðsending: Jói Helga
4 0 Hallgrímur Mar Steingrímsson (39) Stoðsending: Jói Helga
5 0 Arsenij Buinickij (46) Stoðsending: Jói Helga
6 0 Ævar Ingi Jóhannesson (78) Stoðsending: Bjarni Mark
7 0 Atli Sveinn Þórarinsson (81) Stoðsending: Orri G
Lið KA í dag:
Rajko, Baldvin (Bjarki Viðars 66.mín), Atli Sveinn, Gauti, Kristján, Hrannar, Jói Helga (Óli Hrafn 72.mín), Orri, Ævar, Hallgrímur og Arsenij (Bjarni Mark 72.mín).
Bekkur: Fannar, Ívar S, Ólafur Hrafn, Jón Heiðar, Bjarni Mark, Úlfar og Bjarki Viðars.
Þrjár breytingar voru gerðar á byrjunarliðinu frá tapinu gegn Ólsurum á laugardaginn. Hrannar Björn kom inn í liðið í stað Davíðs Rúnars eftir að hafa tekið út leikbann á laugardaginn. Rajko fór í markið í stað Fannars og Kristján Freyr kom í vörnina í stað Jón Heiðars. Bjarki Viðars, Hrannar Björn, Rajkovic og Ólafur Hrafn voru að leika sinn fyrsta mótsleik fyrir KA.
Það var ljóst frá fyrstu mínútu í hvað stefndi og var einstefna KA manna algjör í fyrri hálfleik sem og þeim síðari. Fyrsta mark leiksins kom á 16. mínútu þegar að Orri Gústafs átti góðan sprett upp hægri vænginn alveg upp að endalínu og gaf fyrir markið á Ævar sem skoraði í autt markið af stuttu færi.
Fjórum mínútum síðar var Ævar aftur að verki eftir að Jóhann Helgason átti flotta sendingu á Ævar sem lék á einn varnarmann Magna og kláraði færið af stakri prýðri framhjá markverði Magna. Staðan því 2-0 eftir tuttugu mínútur.
Á 34. mínútu jók fyrirliðin Atli Sveinn forystu KA með skallamarki eftir aukaspyrnu frá Jóa Helga frá miðju. Fimm mínútum síðar vann Jói Helga boltann á miðjunni og skallaði inn fyrir á Hallgrím sem tók boltann á lofti og skaut flottu skoti yfir markmann Magna.
Í uppbótartíma fyrri hálfleiks kom fimmta mark KA sem hófst alveg eins og það fjórða. Jói Helga skallaði boltann á miðjunni inn fyrir á Arsenij sem stakk varnarmenn Magna af kláraði færið af stóískri ró. Hans annað mark í jafnmörgum leikjum fyrir KA.
Síðari hálfleikur hófst heldur rólega og dróg ekki til tíðinda fyrr en á 67. mínútu þegar að Pálmar Magnússon leikmaður Magna fékk sitt annað gula spjald fyrir brot á Grímsa. Róðurinn var þungur hjá gestunum frá Grenivík fyrir og við þetta léttist hann ekki. KA liðið gékk á lagið og rúmum tíu mínútum síðar náði Ævar Ingi að skora sitt þriðja mark eftir frábært spil hjá KA. Boltinn gékk þá hratt manna á milli með fáum snertingum og lauk með því að Bjarni Mark átti stórkostlega sendingu inn fyrir á Ævar sem skaut boltanum ofarlega í hægra hornið. Staðan því 6-0 KA í vil.
Nokkrum mínútum síðar gerðist skondið atvik þegar að mikill barningur varð inn í vítateig gestanna þar sem Atli Sveinn og Orri voru í harðri baráttu við varnarmann Magna um boltann inn í markteig og var mjög erfitt að sjá hvort boltinn hefði farið inn fyrir línuna eða ekki. Aðstoðardómari 2 gaf hinsvegar merki um að svo hefði verið og annað mark fyrirliðans í kvöld því staðreynd.
7-0 urðu lokatölur leiksins og KA komið áfram í næstu umferð.
KA-maður leiksins: Ævar Ingi Jóhannesson (Skoraði þrennu og hljóp eins og óður maður allann leikinn.) Einnig voru reynsluboltarnir Atli Sveinn og Jói Helga mjög góðir. Atli með tvö mörk og Jói fjórar stoðsendingar. Annars átti allt liðið mjög góðan leik eins og tölurnar gefa til kynna.
Dregið verður í 32-liða úrslitum næstkomandi fimmtudag í höfuðstöðvum KSÍ og kemur þá í ljós hvaða liði KA mætir. Næsti leikur KA er hinsvegar á laugardaginn næsta 17. maí er liðið sækir Þróttara heim i Laugardalinn.