Umfjöllun: 4-2 tap gegn Haukum

KA menn töpuðu gegn Haukum 4-2 á Ásvöllum í Hafnarfirði í kvöld. Atli Sveinn Þórarinsson og Hallgrímur Mar Steingrímsson skoruðu mörk KA. Tap í kaflaskiptum leik þar sem KA voru sterkari í fyrri hálfleik en Haukar í þeim í síðari þar sem mörkunum rigndi inn. Staðan í hálfleik var 0-1 KA í vil en heimamenn skoruðu 4 mörk gegn 1 frá KA í þeim síðari.


 

Haukar 4 – 2 KA

0-1 Atli Sveinn Þórarinsson (’33), Stoðsending: Hallgrímur Mar Steingrímsson

1-1 Hafsteinn Briem (’56)

2-1 Andri Steinn Birgisson (’61)

2-2 Hallgrímur Mar Steingrímsson (’72)

3-2 Hilmar Trausti Arnarsson (’83) Víti

4-2 Hafsteinn Briem (’91)

Lið KA í dag: Sandor Matus, Ómar Friðriksson, Atli Sveinn Þórarinsson, Ivan Dragevicevic, Jón Heiðar Magnússon (Kristján 75.mín), Brian Gilmour (Andrés 70.mín), Davíð Rúnar Bjarnason, Bjarki Baldvinsson, Hallgrímur Mar Steingrímsson, Orri Gústafsson (Bessi 65.mín), Carsten Pedersen.

Bekkur: Fannar Hafsteinsson, Andrés Vilhjálmsson, Bessi Víðisson, Gunnar Már Magnússon, Kristján Freyr Óðinsson, Fannar Freyr Gíslason.

Það var óvenju fámennt á Schenkervellinum á Ásvöllum þegar að Garðar Örn Hinriksson dómari leiksins flautaði til leiks. Tvær breytingar voru á byrjunarliði KA frá tapinu gegn Víkingum í síðustu umferð. Jón Heiðar Magnússon kom inn fyrir Kristján Frey Óðinsson og Orri Gústafsson kom inn fyrir Mads Rosenberg. Darren Lough, Mads Rosenberg, Ævar Ingi Jóhannesson og Gunnar Valur voru allir fjarri vegna meiðsla. Gunnar Már Magnússon kom inn í hópinn eftir stutta láns dvöl hjá sínu gamla félagi Dalvík/Reyni. 

Okkar menn byrjuðu leikinn vel og voru sterkara liðið á vellinum fyrri hálfleik. Litlu munaði að KA kæmist yfir eftir 10. mínútna leik þegar Brian Gilmour skoraði næstum því beint úr hornspyrnu. Skaut boltanum upp í vindinn og endaði hann rétt fyrir ofan markslá heimamanna. Að öðruleiti einkenndust fyrstu 25. mínútur leiksins af löngum háum boltum frá báðum liðum og lítið um spil. 

Haukar áttu í rauninni aðeins eitt gott færi í fyrri hálfleik og kom það á 28. mínútu leiksins. Löng sending rétt fyrir aftan miðlínuna endaði á kollinum á Andra Stein Birgissyni sem skallaði í slá og í kjölfarið fengu Haukar dauðafæri við markteig en Sandor varði glæsilega í horn. Haukar klaufar að komast ekki yfir í algjöru dauðafæri.

Restin af fyrri hálfleiknum var síðan algjör eign okkar manna. Hornspyrnur Brian Gilmour voru stórhættulegar og skapaðist oft mikil hætta í vítateig Hafnfirðinga. Á 33. mínútum geystist Hallgrímur Mar síðan upp kantinn eins og oft áður í leiknum og réðu Haukar ekkert við hann og sá þann kost vænstan að brjóta á honum. Garðar Örn dæmdi aukapyrnu vinstra megin við horn vítateigsins. Hallgrímur Mar tók sjálfur spyrnuna og var hún föst og gríðarlega góð og rataði beint á kollinn á fyrirliða KA, Atla Svein Þórarinsson sem skallaði boltann í netið. Og verðskulduð forysta KA staðreynd.

Á 35. mínútu náði Orri Gústafsson boltanum að harðfylgi í vítateig Hauka og gaf góða sendingu fyrir á Hallgrím Mar sem skaut boltanum í stöng. Okkar menn óheppnir að bæta ekki við forystuna en þetta var það síðasta markverða í fyrri hálfleik og fóru okkar menn með 0-1 forystu inn í hálfleikinn.

Seinni hálfleikur var heldur betur fjörlegur og rigndi hreinlega inn mörkunum. Ólíkt fyrri hálfleik voru Haukar ívið sterkari og áttu hættuleg færi. Á 56. mínútu jöfnuðu heimamenn síðan metin. En þar var að verki Hafsteinn Briem. Aukaspyrna Hauka frá miðju var hnitmiðuð og Hafsteinn Briem stökk manna hæst í teignum og Sandor var alltof seinn í úthlaupi sínu og Hafsteinn skoraði nokkuð auðveldlega í tómt mark.

Við markið vöknuðu okkar menn aðeins og áttu tvær flottar sóknir. Í þeirri síðari vann Hallgrímur Mar boltann af markaskoranum Hafsteini Briem á miðjum vallarhelming Hauka og keyrði í áttt að markinu og átti hörkuskot rétt fyrir utan vítateig sem endaði í stönginni. Upp úr þessu brunuðu Haukar upp völlinn og endanum barst boltinn til Andra Steins Birgissonar  sem lét vaða af löngu færi og hitti boltann líka svona vel og hann small í netinu. Óverjandi fyrir Sandor í markinu. Eftir markið gerðu KA tvær breytingar á liðinu sem virtust virka vel. Á 72. mínútu var síðan komið að Hallgrími Mar Steingrímssyni besta leikmanni KA í leiknum. Hann tók á sprett út við hliðarlínu og tók nokkra Haukmenn á og brá einn þeirra á það ráð að fella Hallgrím sem féll við en spratt upp á lappir á skotstundu og þvældi síðan en einn varnarmann Hauka og smellti boltanum framhjá markverði Hauka. Boltinn átti þó viðkomu í varnarmanni Hauka en við skráum markið á Hallgrím enda átti hann markið frá A-Ö og staðan því orðinn jöfn 2-2.

Eftir markið frá Hallgrími sóttu Haukar í sig veðrið og á 83. mínútu bar það árangur þegar að Kristján Freyr Óðinsson braut á leikmanni Hauka inn í vítateig að mati Garðars Arnar dómara leiksins. Strangur dómur að mínu mati og yrðu ansi margar vítaspyrnur í hverjum leik ef að þetta á að vera víti. Fyrirliði Hauka Hilmar Trausti steig á punktinn og skoraði af miklu öryggi og sendi Sandor í vitlaust horn.

Lokamínúturnar voru rólegar og fátt markvert gerðist það sem eftir lifði leiks og náðu okkar menn ekki að ógna marki Hauka nægilega. Þegar að ein mínúta var kominn fram yfir venjulegan leiktíma innsigluðu Haukar síðan sigur sinn með marki frá Hafstein Briem eftir góðan undirbúning frá Ásgeiri Ingólfssyni. 4-2 tap því staðreynd í mjög kaflaskiptum leik. 

KA maður leiksins: Hallgrímur Mar Steingrímsson. ( Ávallt hættulegur þegar að hann fékk boltann og skoraði seinna mark KA með einstaklingsframtaki og undirbjó fyrra mark KA í leiknum.)

Næsti leikur liðsins er heimaleikur þegar að við fáum BÍ/Bolungarvík í heimsókn á Akureyrarvöll laugardaginn 22. júní kl. 14.00.