Umfjöllun: 4-1 sigur á Þrótturum

Mynd / Þórir Tryggva.
Mynd / Þórir Tryggva.

KA 4 – 1 Þróttur R.
1 – 0 Sjálfsmark (’1) Stoðsending: Josip
1 – 1 Viktor Jónsson (’16)
2 – 1 Davíð Rúnar Bjarnason (’43) Stoðsending: Archie
3 – 1 Elfar Árni Aðalsteinsson (’48) Stoðsending: Hrannar Björn
4 – 1 Jóhann Helgason (’73) Stoðsending: Elfar Árni

Lið KA:
Rajko, Hrannar Björn, Davíð Rúnar, Callum, Hilmar Trausti, Archie, Jóhann, Halldór Hermann, Josip, Ævar Ingi og Elfar Árni.

Bekkur: Aron Ingi, Juraj, Ólafur Aron, Ben, Ívar Örn, Ívar Sigurbjörns og Bjarki Viðars.

Skiptingar:
Halldór Hermann út – Juraj inn (’73)
Elfar Árni út – Ben inn (’86)
Josip út – Ívar Örn inn (’90)

Það voru ekki liðnar nema rúmar 40 sekúndur af leiknum í kvöld þegar að KA skoraði fyrsta mark leiksins. Miðjumaður Þróttara Tonny Mawejjje átti þá dapra sendingu sem leiddi til þess að Josip fékk nægan tíma til að sækja upp vinstri vænginn og upp að endamörkum þar sem hann gaf fyrir þar sem varnarmaðurinn Karl Brynjar Björnsson varð fyrir því óláni að tækla boltann í eigið mark. Óskabyrjun hjá KA eins og svo oft áður í sumar.

Þróttarar voru hinsvegar sterkari næstu mínútur og korteri síðar átti Vilhjálmur Pálmason frábæra fyrirgjöf frá vinstri kanti á markahæsta leikmann deildarinnar, Viktor Jónsson sem skallaði boltann í netið.  Sanngjarnt jöfnunarmark Þróttara sem hafði legið í loftinu mínúturnar á undan.

Leikurinn var síðan afar fjörlegur og færi á báða bóga og komst Ævar nálægt því að skora en skot hans var hárfínt framhjá eftir fyrirgjöf frá vinstri. Það var svo á markamínútunni frægu sem KA komst aftur yfir og kom markið eftir hornspyrnu frá Hilmari Trausta og Archie framlengdi boltann með hælnum áfram inn í markteig þar sem Davíð Rúnar kom boltanum yfir línuna og kom KA í 2-1.  Staðan í hálfleik  2-1 KA í vil og vel hægt að færa fyrir því rök að sú forysta hafi verið fyllilega verðskulduð.

Síðari hálfleikur hófst á sömu nótum og sá fyrri. KA pressaði gestina stíft og voru ákafir. Josip átti góðan sprett, einn af mörgum sem leiddi til þess að brotið var á honum rétt fyrir utan teig. Hrannar Björn tók aukaspyrnuna og hrökk boltinn af Elfari Árna og framhjá Trausta markverði Þróttar. 3-1 fyrir KA og staðan vænleg.

Svo virtist sem markið gæfi KA byr undir báða vængi og hélt pressan frá KA áfram og var virkilega gaman að fylgjast með liðinu. Gestirnir áttu einnig sínar rispur og á 55. mínútu bjargaði Jói Helga meðal annars á línu eftir snarpa sókn frá Þrótturum.

KA liðið hinsvegar stýrði leiknum áfram og sóttu mikið meira.  Á 73. mínútu var fyrirliðinn aftur í sviðsljósinu þegar að Elfar Árni lagði boltann út fyrir teiginn á Jóa sem átti skot að marki sem varnarmaður Þróttar komst fyrir en boltinn kom aftur fyrir fætur Jóa sem skaut aftur að marki og nú framhjá varnarmönnum Þróttar og markverði þeirra og í netið. Staðan 4-1 og KA nánast búið að gera út um leikinn.

KA liðið gaf síðan ekkert eftir síðustu mínútur leiksins og héldu bara áfram að sækja og slökuðu ekkert á klónni. Einfaldlega frábær spilamennska hjá liðinu sem hefur spilað stórkostlega í síðustu tveimur leikjum eftir að Túfa tók við liðinu. Kraftur og eljusemi og ekki tomma gefinn eftir. Eitthvað sem var ábótavant í leikjunum þar á undan. Nú er bara að halda áfram sömu spilamennsku í næstu leikjum og er aldrei að vita hverju það getur skilað. En sú gamla tugga að taka einn leik fyrir í einu er eitthvað sem við KA menn einblínum á núna og er næsti leikur KA á laugardaginn næstkomandi á Ísafirði þegar að BÍ/Bolungarvík verða sóttir heim. Leikurinn hefst kl. 14.00. Áfram KA!

KA-maður leiksins: Davíð Rúnar Bjarnason (Var frábær í vörninni eins og ávallt. Öruggur á boltann, tapaði ekki návígi né skallabolta og átti heilt yfir mjög góðan dag ásamt öllum í öftustu línunni) Josip og Jói Helga voru síðan stórkostlegir á miðjunni og var hrein unun að fylgjast með þeim.