Þór/KA - Valur í dag á Þórsvelli

Mikilvæg 3 stig í boði fyrir Þór/KA í dag
Mikilvæg 3 stig í boði fyrir Þór/KA í dag

Kvennalið Þórs/KA tekur í dag á móti sterku liði Vals klukkan 18:00 á Þórsvelli. Gengi liðsins hefur ekki verið nægilega gott að undanförnu og hefur liðið fallið niður í 7. sæti deildarinnar. Stjarnan og Breiðablik sem eru á toppnum virðast vera í sérflokki í deildinni og því líklegt að liðin fyrir neðan muni berjast um 3. sætið.

Þrátt fyrir að stelpurnar séu í 7. sæti deildarinnar eins og er þá á liðið þennan leik gegn Val í dag til góða á önnur lið deildarinnar og með sigri munar einungis þremur stigum á liðinu og Val sem er í 3. sætinu.

Það eru því ansi mikilvæg 3 stig í boði fyrir lið Þór/KA í dag, með sigri kemur liðið sér aftur af krafti inn í baráttuna um 3. sætið en tapist leikurinn verður brekkan orðin ansi brött. Við hvetjum alla til að mæta á Þórsvöll og hvetja stelpurnar áfram, það býr mikið í liðinu og liðið þarf stuðning til að koma sér aftur á skrið, áfram Þór/KA!