Íslandsmeistarar Þórs/KA eru komnir áfram í undanúrslit Lengjubikarsins eftir góðan 3-1 sigur á FH í lokaleik riðlakeppninnar. Önnur lið eiga enn leik eftir og því kemur í ljós eftir nokkra daga hver andstæðingur liðsins í undanúrslitunum verður.
Þór/KA 3 - 1 FH
1-0 Margrét Árnadóttir ('17)
2-0 Anna Rakel Pétursdóttir ('31, víti)
3-0 Hulda Ósk Jónsdóttir ('66)
3-1 Marjani Hing-Glover ('80)
Þór/KA náði forystunni á 17. mínútu þegar Margrét Árnadóttir skoraði gott mark og Anna Rakel Pétursdóttir tvöfaldaði forskotið á 31. mínútu með marki úr vítaspyrnu.
Hulda Ósk Jónsdóttir kom liðinu svo í 3-0 um miðjan síðari hálfleikinn og var í rauninni aldrei spurning frá upphafi leiks hvar sigurinn myndi enda. Gestirnir náðu þó að laga stöðuna og var það Marjani Hing-Glover sem gerði það er 10 mínútur lifðu leiks.
3-1 sigur staðreynd og liðið endar því riðlakeppnina með 7 stig og er öruggt áfram í undanúrslitin. Eins og er þá er liðið í 3. sæti riðilsins en Stjarnan á eftir að leika lokaleik sinn og getur því farið upp fyrir Þór/KA.
Spilamennskan í dag var flott og virðist sem liðið sé að smella betur og betur saman nú þegar styttist í sumarið. Stelpurnar byrjuðu Lengjubikarinn ekki alveg nægilega vel en eru komnar í gang og verður gaman að sjá liðið í undanúrslitunum þann 15. apríl næstkomandi.