Í dag klukkan 17:30 tekur kvennalið Þórs/KA á móti Breiðabliki í næstsíðustu umferð Pepsi deildar kvenna en leikurinn er síðasti heimaleikur stelpnanna í sumar. Breiðablik getur tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn með sigri en á sama tíma er okkar lið í harðri baráttu um 3. sæti deildarinnar.
Þór/KA vann mjög góðan 0-4 útisigur á Val í síðustu umferð sem ætti að gefa liðinu byr undir báða vængi. Breiðablik er ósigrað í deildinni og hefur einungis gert tvö jafntefli en Þór/KA hefur alltaf verið erfitt heim að sækja og væri gaman að sjá stelpurnar ná að leggja þetta öfluga lið að velli.
Leikurinn er sýndur í beinni á SportTV.is en við hvetjum að sjálfsögðu alla til að mæta á Þórsvöllinn og styðja stelpurnar til sigurs enda ætlar liðið sér að ná 3. sæti deildarinnar, áfram Þór/KA!