Ekki tókst kvennaliði Þórs/KA að næla í stig á útivelli gegn toppliði Breiðabliks í kvöld en leiknum lauk með 2-0 sigri heimastúlkna. Það er því ljóst að Breiðablik er að stinga af á toppi Pepsi deildar kvenna og okkar lið þarf að fara að finna taktinn að nýju til að missa ekki af lestinni.
Breiðablik 2 - 0 Þór/KA
1-0 Fanndís Friðriksdóttir ('20, víti)
2-0 Telma Hjaltalín Þrastardóttir ('40)
Leikurinn fór tiltölulega rólega af stað en það dróg til tíðinda á 20. mínútu þegar Akureyrarmærin í liði Blika, Rakel Hönnudóttir, féll í teignum og dæmt var víti. Ekki voru okkar stúlkur ánægðar með þann dóm en víti dæmt og úr því skoraði Fanndís Friðriksdóttir og staðan því orðin 1-0.
Stuttu fyrir lok fyrri hálfleiks tvöfölduðu Blikar forystu sína þegar Telma Hjaltalín skallaði boltann í netið eftir fyrirgjöf frá Fanndísi en Fanndís var stórhættuleg í kvöld.
Strax á eftir munaði minnstu að Ágústa Kristinsdóttir næði að laga stöðuna en skalli hennar fór í slánna og sluppu heimastúlkur með skrekkinn.
Síðari hálfleikurinn var svo frekar tíðindalítill, okkar lið reyndi hvað það gat til að koma sér aftur inn í leikinn en áttu erfitt með að komast í opin færi þó að hætta hafi oft verið í sóknum liðsins.
2-0 tap því staðreynd og Breiðablik er komið með 22 stig eftir 8 leiki á toppnum á meðan Þór/KA er með 11 stig eftir 7 leiki í 6. sæti deildarinnar. Gengi Þór/KA hefur ekki verið nægilega gott undanfarið en stelpurnar hafa oft sýnd að þær gefast ekki upp og geta komið sterkar til baka.
Næsti leikur liðsins er í 8-liða úrslitum Borgunarbikarsins þegar þær mæta Stjörnunni á útivelli þann 3. júlí.