Þór/KA skoraði aftur 5 mörk í sigri á Þrótti

Klara Lindberg kom Þór/KA á blað í stórsigrinum
Klara Lindberg kom Þór/KA á blað í stórsigrinum

Stelpurnar í Þór/KA skoruðu annan heimaleikinn í röð 5 mörk þegar liðið lagði Þrótt 5-1 í 11. umferð Pepsi deildar kvenna í dag. Með sigrinum fór liðið upp fyrir ÍBV og Fylki og er komið í 5. sæti deildarinnar.

Þór/KA 5 - 1 Þróttur
1-0 Klara Lindberg ('5)
2-0 Sandra María Jessen ('48)
3-0 Kayla June Grimsley ('66, víti)
4-0 Anna Rakel Pétursdóttir ('77)
4-1 Madison Sarah Solow ('83)
5-1 Kayla June Grimsley ('89)

Þór/KA náði algjörri draumabyrjun þegar Klara Lindberg kom liðinu yfir eftir einungis 5 mínútna leik. Eftir hornspyrnu tókst varnarmönnum Þróttar ekki að losa pressuna og Klara réðst á boltann og skoraði gott mark.

Lið Þróttar hafði einungis skorað eitt mark fyrir leikinn í dag og í raun hafði liðið ekki skorað það mark en það var sjálfsmark andstæðinga, það var ótrúlegt að Þrótturum skyldi ekki hafa tekist að skora í fyrri hálfleiknum en Rebekah Bass slapp tvisvar alein í gegnum vörnina en skaut yfir og lét Roxanne verja frá sér í síðara skiptið. Áður hafði Jade Flory sloppið í gegn en Roxanne náði til knattarins.

Staðan því 1-0 í hálfleik og má segja að stelpurnar hafi verið tiltölulega heppnar með þá stöðu, liðið hafði gefið töluvert eftir eftir góða byrjun á leiknum og lið Þróttar átti að refsa en tókst ekki.

En krafturinn kom aftur þegar flautað var til síðari hálfleiks og Sandra María Jessen tvöfaldaði forystuna með laglegu marki eftir að hafa klobbað Mckenzie Sauerwein í marki Þróttar. Sandra er því enn að raða inn mörkunum og að sjálfsögðu var það Kayla Grimsley sem lagði markið upp en Kayla hefur lagt upp ófá mörkin í sumar.

Eftir markið varð smá spennufall og ljóst að lið Þróttar missti móðinn, Sarah Miller sótti síðan vítaspyrnu tæpum 20 mínútum síðar og Kayla skoraði úr spyrnunni.

Kortéri fyrir leikslok kom áhugaverð skipting hjá liði Þór/KA, Harpa Jóhannsdóttir varamarkvörður kom inná í stað Roxanne Kimberly. Spurning með standið á Roxanne en mjög gaman að sjá Hörpu fá nokkrar mínútur í rammanum.

Á 77. mínútu var leikurinn svo endanlega kláraður þegar Anna Rakel Pétursdóttir skoraði mark af dýrari gerðinni. Sandra María senti knöttinn á Önnu í teignum og Anna var ekkert að hika við það, þrumaði boltanum á lofti í netið og staðan orðin 4-0!

Stuttu síðar náðu gestirnir þó að klóra í bakkann og kom það óvænt enda hafði lítil hætta stafað af liðinu í síðari hálfleik. Madison Solow var galopin í teignum og skoraði með skalla, stelpurnar steingleymdu sér í vörninni en kannski skiljanlegt í þessari stöðu.

Kayla Grimsley náði þó að endurheimta fjögurra marka forskot rétt fyrir leikslok þegar hún skoraði af stuttu færi eftir að Sarah Miller hafði farið illa með vörn gestanna, staðan orðin 5-1 sem urðu lokatölur.

Þór/KA nær því að sigra annan leikinn í röð og annar leikurinn í röð sem liðið skorar 5 mörk. En þó að 5-1 líti mjög vel út á pappírunum þá verður að líta til þess að liðið var stálheppið með að halda forystunni eftir fyrri hálfleikinn. En hrósa ber stelpunum fyrir að keyra yfir gestina í síðari hálfleiknum.

Liðið stekkur nú upp í 5. sætið og er stutt í liðin í 3. og 4. sætinu, það er því bara vonandi að stelpurnar haldi áfram að raða inn mörkum og klára leikina. Vonin um 1. og 2. sætið er fjarri enda virðast Breiðablik og Stjarnan vera í sérflokki í deildinni en ég hef tröllatrú á liðinu að enda mótið vel og ná 3. sætinu. Áfram Þór/KA!