Íslandsmeistarar Stjörnunnar tóku á móti toppliði Þór/KA í 7. umferð Pepsi deildar kvenna í kvöld. Fyrir leikinn munaði tveimur stigum á liðunum í efstu tveimur sætunum og mikið í húfi fyrir bæði lið.
Stjarnan 1 - 3 Þór/KA
1-0 Agla María Albertsdóttir ('3)
1-1 Sandra Mayor ('36)
1-2 Natalia Gomez ('45)
1-3 Hulda Ósk Jónsdóttir ('60)
Hér má sjá umfjöllun RÚV um þennan magnaða sigur
Strax frá upphafsflautinu var ljóst að lið Þórs/KA ætlaði sér að sækja til sigurs og það var því mikill skellur þegar Agla María Albertsdóttir skoraði fyrir heimastúlkur með laglegu skoti utan teigs strax á 3. mínútu.
Eftir markið réðu okkar stelpur algjörlega ferðinni og fór leikurinn að mestu fram á vallarhelmingi Stjörnunnar. Þór/KA fékk ótal hornspyrnur en því miður tókst ekki að nýta þær. Þegar leið á hálfleikinn varð meira jafnvægi í leiknum en lítið um færi.
En á 36. mínútu kom loksins jöfnunarmarkið þegar Anna Rakel Pétursdóttir átti háa sendingu inn í teig á Söndru Mayor sem að tók boltann vel niður og renndi honum í netið óverjandi fyrir Gemmu Fay í markinu.
Áfram héldu stelpurnar að pressa á lið Stjörnunnar og í uppbótartíma fyrri hálfleiks lét Sandra Mayor boltann ganga til Nataliu Gomez sem var í ágætis skotfæri fyrir utan teig og hún lét vaða á markið. Boltinn fór í þokkalegum boga að markinu og Gemma í markinu var of framarlega og boltinn lá í netinu. Skömmu síðar var flautað til hálfleiks og staðan 1-2 eftir frábæra endurkomu eftir erfitt mark í byrjun.
Síðari hálfleikur hófst á svipuðum nótum og hvernig fyrri hálfleik lauk, bæði lið að reyna fyrir sér og greinilegt að bæði lið ætluðu sér sigurinn. Sigrún Ella Einarsdóttir slapp svo alein í gegnum vörn Þór/KA á 52. mínútu en Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir varði glæsilega í markinu. Skömmu síðar fékk Þór/KA aukaspyrnu alveg upp við teiginn en ágætt skot Söndru Mayor var varið.
Á 60. mínútu fékk Þór/KA aðra aukaspyrnu af um það bil 35 metra færi og Natalia þrumaði á markið, boltinn í slá og út en Hulda Ósk Jónsdóttir var fyrst að átta sig og skoraði auðveldlega og staðan skyndilega orðin 1-3. Sandra María Jessen fékk fínt færi nokkrum mínútum síðar en skot hennar var framhjá. Sandra var skömmu síðar tekin útaf en hún var að leika sinn 100. leik fyrir Þór/KA.
Leikurinn róaðist töluvert eftir markið og fóru liðsmenn Þórs/KA að halda boltanum og vinna tíma. Það ætlunarverk tókst vel og tempóið í leiknum fór algjörlega. Katrín Ásbjörnsdóttir átti að vísu gott skot í slá á lokasekúndum leiksins en inn vildi boltinn ekki.
Lokatölur 1-3 og algjörlega frábær sigur staðreynd. Karakterinn í liðinu að láta þessa blautu tusku sem að mark Stjörnunnar var í byrjun leiks ekkert stöðva sig og vinna að lokum sannfærandi 1-3 sigur er frábært. Stelpurnar eru með fullt hús stiga eftir 7 leiki og eru með 5 stiga forskot á næsta lið sem er stórkostlegt!