Það er mikið álag á liði Þórs/KA þessa dagana en nú er farið að styttast í pásu í Pepsi deild kvenna vegna EM í Hollandi. Áður en kemur að þessari pásu á liðið hinsvegar tvo erfiða útileiki og sá fyrri er á morgun, þriðjudag.
Þá sækir liðið stórlið Vals heim en liði Vals var einmitt spáð Íslandsmeistaratitlinum fyrir sumarið. Þór/KA stelpurnar voru hinsvegar ekkert að virða það þegar liðin mættust í Boganum í fyrstu umferð deildarinnar og unnu góðan 1-0 sigur þar sem Sandra Mayor skoraði sigurmarkið góða.
Stelpurnar eru eins og allir ættu að vita á toppi deildarinnar með fullt hús stiga eða 27 stig. Á sama tíma eru Valsarar með 18 stig og þetta er því algjör úrslitaleikur fyrir lið Vals um að koma sér inn í toppbaráttuna eftir erfiða byrjun á sumrinu.
Á sunnudaginn á Þór/KA svo útileik gegn Breiðablik sem er einmitt í 2. sæti deildarinnar. Það er því mikið undir hjá okkar stelpum í þessum tveimur leikjum fyrir hlé enda gætu þær með góðum árangri algjörlega stungið af í toppbaráttunni eða með slöku gengi misst niður forskotið.
Við hvetjum því að sjálfsögðu alla sem geta til að mæta á Valsvöllinn á morgun klukkan 18:00 og styðja stelpurnar til sigurs. Þetta er einfaldlega einn mikilvægasti leikurinn í sumar, áfram Þór/KA!
FÉLAG | L | U | J | T | MÖRK | NET | STIG | |
---|---|---|---|---|---|---|---|---|
1 | Þór/KA | 9 | 9 | 0 | 0 | 22 - 3 | 19 | 27 |
2 | Breiðablik | 9 | 7 | 0 | 2 | 21 - 4 | 17 | 21 |
3 | Stjarnan | 9 | 6 | 1 | 2 | 20 - 9 | 11 | 19 |
4 | ÍBV | 9 | 6 | 1 | 2 | 18 - 8 | 10 | 19 |
5 | Valur | 9 | 6 | 0 | 3 | 25 - 9 | 16 | 18 |
6 | FH | 9 | 4 | 0 | 5 | 11 - 12 | -1 | 12 |
7 | KR | 9 | 2 | 0 | 7 | 6 - 20 | -14 | 6 |
8 | Grindavík | 9 | 2 | 0 | 7 | 6 - 28 | -22 | 6 |
9 | Fylkir | 9 | 1 | 1 | 7 | 4 - 20 | -16 | 4 |
10 | Haukar | 9 | 0 | 1 | 8 | 5 - 25 | -20 | 1 |