Það er meistaraslagur í Vestmannaeyjum í Pepsi deild kvenna í dag þegar Íslandsmeistarar Þórs/KA sækja Bikarmeistara ÍBV heim. Leikurinn hefst klukkan 14:00 og verður virkilega áhugavert að fylgjast með gangi mála enda hefur verið mikið líf í síðustu viðureignum liðanna.
Liðin mættust í Meistari Meistaranna á KA-velli fyrir skömmu þar sem okkar lið vann mjög sannfærandi 3-0 sigur með tveimur mörkum frá Margréti Árnadóttur og einu frá Söndru Mayor.
Á síðustu leiktíð voru leikir liðanna hinsvegar ákaflega jafnir og spennandi, fyrri leikurinn fór fram á Þórsvelli og vann Þór/KA 3-1 eftir að hafa skorað tvö mörk á lokamínútunum. Vestmannaeyingar hefndu hinsvegar fyrir það tap með endurkomusigri í Eyjum en Þór/KA leiddi 0-2 í hálfleik sem dugði ekki því ÍBV vann á endanum 3-2.