Kvennalið Þórs/KA gjörsamlega valtaði yfir sterkt lið Vals nú í dag á Þórsvelli. Lokatölur urðu 5-0 sem eru ótrúlegar tölur og þá sérstaklega þegar til þess er litið að þetta er fyrsti sigur liðsins á Val á Akureyri frá því að Þór og KA hófu að tefla fram sameiginlegu liði.
Þór/KA 5 - 0 Valur
1-0 Sandra María Jessen ('31)
2-0 Klara Lindberg ('44)
3-0 Kayla Grimsley ('65)
4-0 Sarah Miller ('71)
5-0 Kayla Grimsley ('73)
Gengi Þórs/KA hafði verið slakt að undanförnu og aðeins náð í 2 stig úr síðustu 5 leikjum ásamt því að falla úr leik í Borgunarbikarnum. Það voru því margir sem voru ekkert alltof bjartsýnir fyrir leikinn í dag þegar liðið tók á móti sterku liði Vals sem situr í 3. sæti deildarinnar.
Stelpurnar byrjuðu leikinn hinsvegar af miklum krafti og gestirnir áttu lítið í leiknum, Sandra María Jessen komst í flott færi og átti gott skot sem Þórdís í marki gestanna varði vel. Þór/KA fékk ógrynni af hornspyrnum á upphafsmínútunum en inn vildi boltinn ekki. Valsstúlkur komu sér svo aðeins betur inn í leikinn en eftir hálftíma leik skoraði Sandra María fyrsta mark leiksins þegar hún skallaði boltann í slánna og inn eftir flotta fyrirgjöf frá Sarah Miller.
Sarah var svo aftur á ferðinni rétt fyrir lok fyrri hálfleiks þegar hún gaf boltann fyrir markið og Klara Lindberg var á hárréttum stað og setti boltann laglega í netið og hálfleikstölur 2-0.
Síðari hálfleikur var svo í raun algjört formsatriði, lið Þórs/KA réði lögum og lofum í leiknum og var mun líklegra til að bæta í forystuna heldur en Valsstúlkur að koma sér aftur í leikinn. Eftir um 20 mínútna leik vildu stelpurnar fá víti þegar boltinn fór í hönd eins varnarmanns gestanna en fengu ekki. Aukaspyrna var þó dæmd og Kayla Grimsley gerði sér lítið fyrir og skoraði úr henni en boltinn fór í gegnum varnarvegginn og endaði í netinu, 3-0.
Strax á eftir fékk okkar lið urmul af færum sem gáfu tvö mörk, fyrst skoraði Sarah eftir fína sendingu frá Gígju og strax á eftir kláraði Kayla endanlega leikinn þegar hún smellhitti boltann á lofti og setti hann óverjandi í netið eftir magnaða sendingu frá Sarah Miller en Sarah átti frábæran leik rétt eins og allt Þór/KA liðið.
Síðustu mínútur leiksins voru svo ákaflega daufar, heimastúlkur með hrikalega öruggan leik í höndunum á meðan gestirnir virkuðu í sjokki enda ekki oft sem þær þurfa að þola svona niðurlægingu.
Það ber að hrósa okkar liði allhressilega fyrir þennan leik, gengið undanfarið hefur verið slakt og sýnir það gríðarlegan karakter að rífa sig svona upp fyrir jafn erfiðan leik og leikurinn í dag var og gjörsamlega rótbursta Valsliðið. Nú munar einungis þremur stigum á Val í 3. sætinu og Þór/KA og ljóst að ef liðið nær að leika svipaðan leik áfram og það gerði í dag er góður möguleiki á að ná 3. sætinu í deildinni, áfram Þór/KA!