Íslandsmeistarar Þór/KA hafa ekki byrjað nægilega vel í Lengjubikarnum en fyrir leikinn í kvöld höfðu stelpurnar aðeins nælt sér í eitt stig. Það breyttist þó heldur betur eftir spennandi leik gegn Bikarmeisturum ÍBV.
ÍBV 1-2 Þór/KA
1-0 Adrienne Jordan ('11)
1-1 Lára Einarsdóttir ('59)
1-2 Arna Sif Ásgrímsdóttir ('71)
Leikur kvöldsins fór fram á Leiknisvelli og voru það "heimastúlkur" í ÍBV sem byrjuðu betur því Adrienne Jordan skoraði fyrsta mark leiksins á 11. mínútu og var staðan 1-0 þegar flautað var til hálfleiks.
Betur gekk í þeim síðari en á 59. mínútu jafnaði Lára Einarsdóttir metin og stuttu síðar skoraði Arna Sif Ásgrímsdóttir laglegt mark og kom Þór/KA yfir í 2-1. Það urðu einmitt lokatölur og fyrsti sigur Þór/KA í Lengjubikarnum í ár staðreynd.
Stelpurnar eru því komnar með 4 stig eftir 4 leiki en lokaleikur þeirra í riðlinum er gegn FH næstu helgi í Boganum. Með sigrinum eru stelpurnar komnar í góðan séns á að komast áfram í undanúrslit Lengjubikarsins og því mikið undir í þeim leik.