Þór/KA malaði Aftureldingu

5 mörk í þremur leikjum í röð er ótrúlegt!
5 mörk í þremur leikjum í röð er ótrúlegt!

Kvennalið Þórs/KA mætti í Mosfellsbæinn í dag og mætti þar botnliði Pepsi deildar kvenna, Aftureldingu, í leik í 12. umferð deildarinnar. Fyrir fram var búist við sigri okkar liðs en þó hefur Afturelding sýnt góðan leik undanfarið og því ljóst að sigurinn yrði ekki auðsóttur.

Afturelding 1-5 Þór/KA 
0-1 Sandra María Jessen ('12) 
0-2 Sarah Miller ('41) 
0-3 Klara Lindberg ('61) 
1-3 Sigríður Þóra Birgisdóttir ('65) 
1-4 Klara Lindberg ('68) 
1-5 Silvía Rán Sigurðardóttir ('83)

Fyrsta mark leiksins kom strax á 12. mínútu leiksins þegar Sandra María Jessen kom knettinum í netið. Sandra María heldur því áfram að raða inn mörkunum en hún er komin með 9 mörk í deildinni í sumar.

Okkar lið reyndi hvað það gat til að ná öðru marki á meðan heimastúlkur vörðust vel og reyndu að sækja hratt í bakið til að jafna en Sarah Miller tvöfaldaði loks forystuna stuttu fyrir hálfleik.

Klara Lindberg sem hefur verið sjóðandi í síðustu leikjum gekk svo frá leiknum þegar hún skoraði laglegt mark eftir um kortérs leik í síðari hálfleik. Sigríður Þóra Birgisdóttir lagaði að vísu stöðuna fyrir heimaliðið stuttu síðar en það var ljóst að bilið var of mikið.

Afturelding reyndi þó að gefa meira í sóknina til að freista þess að minnka muninn enn frekar en Klara Lindberg skoraði þá stuttu síðar gott mark sem slökkti þá litlu von í fæðingu. Klara komin með 8 mörk í deildinni og gott að bæði hún og Sandra María séu að skora vel af mörkum.

Það var síðan Silvía Rán Sigurðardóttir sem rak síðasta naglann í kistu Aftureldingar þegar hún skoraði fimmta mark Þórs/KA og lokatölur því 1-5. Þriðji sigurleikur liðsins í röð og það sem er enn magnaðri staðreynd, þriðji leikurinn í röð þar sem liðið skorar fimm mörk!

Frábær 3 stig í hús og það sem meira er þá er liðið að spila mjög fínan bolta um þessar mundir og er að raða inn mörkunum. Nú skýst liðið upp deildina og nú er bara að vona að þessi dampur haldi út sumarið og liðið landi þriðja sætinu í deildinni. Áfram Þór/KA!