Kvennalið Þórs/KA tryggði sér í gær sæti í undanúrslitum Borgunarbikarsins með 1-0 sigri á Fylki á Þórsvelli. Stelpurnar í Þór/KA höfðu mikla yfirburði í leiknum en alls áttu þær 13 marktilraunir en gestirnir einungis 3. Hinsvegar náðist aðeins að nýta eina tilraun en þar var á ferðinni Sandra Stephany Mayor Gutierrez strax á 13. mínútu.
Stelpurnar áttu magnaða sókn þar sem Natalia fór framhjá tveimur leikmönnum Fylkis áður en boltinn barst til Önnu Rakel sem fann Söndru Maríu með glæsilegri sendingu inn fyrir vörnina og Sandra María var óeigingjörn og renndi boltanum til Söndru Stephany sem gat ekki gert annað en að renna knettinum í netið.
Gestirnir reyndu hvað þeir gátu til að koma sér aftur inn í leikinn en öflug vörn okkar liðs sá til þess að í öllum leiknum náðu gestirnir ekki skoti á markið!
Við óskum stelpunum að sjálfsögðu til hamingju með sætið í undanúrslitunum en rétt rúmar tvær vikur eru í að undanúrslitin verði spiluð.