Þór/KA í frábærri stöðu eftir útisigur

Stelpurnar eru í lykilstöðu fyrir lokasprettinn!
Stelpurnar eru í lykilstöðu fyrir lokasprettinn!

Kvennalið Þórs/KA vann í kvöld góðan 1-4 útisigur á Haukum og á sama tíma töpuðu helstu keppinautar liðsins í toppslagnum stigum.

Haukar 1 - 4 Þór/KA
1-0 Vienna Behnke ('24)
1-1 Bianca Elissa ('25)
1-2 Sandra Mayor ('50)
1-3 Sandra Mayor ('61, víti)
1-4 Sandra Mayor ('63)

Fyrirfram bjuggust flestir við öruggum sigri okkar liðs enda á toppi deildarinnar á meðan Haukastúlkur sátu í neðsta sæti með aðeins 1 stig. En það getur allt gerst í fótboltanum og heimastúlkur sýndu klærnar og komust yfir á 24. mínútu þegar Vienna Behnke kom boltanum í netið eftir basl í teig Þórs/KA.

Óvænt staða en það tók okkar lið aðeins mínútu að jafna metin þegar Sandra Mayor átti skot að marki, Haukavörnin komst fyrir skot hennar en Bianca Elissa var vel á varðbergi og kom knettinum á sinn stað. Staðan orðin 1-1 og nægur tími eftir.

Lítið markvert gerðist það sem eftir lifði fyrri hálfleiks og var því staðan jöfn er liðin gengu til búningsherbergja. Það var hinsvegar meira líf í þeim síðari og strax á 50. mínútu kom næsta mark leiksins þegar boltinn barst til Söndru Mayor eftir klafs í teig heimastúlkna og hinn magnaði Borgarstjóri kláraði af stakri snilld.

Tíu mínútum síðar léku Söndrurnar vel saman sem endaði með því að Sandra María Jessen var felld innan teigs og vítaspyrna dæmd. Borgarstjórinn tók spyrnuna og skoraði af öryggi og staðan orðin góð þegar hálftími lifði enn leiks.

Ekki leið á löngu uns staðan var orðin 1-4 og enn var Borgarstjórinn magnaði á ferð, boltinn fór að vísu ekki greinilega í markið þar sem heimastúlkur komu boltanum frá en línuvörðurinn stóð fastur á því að boltinn hefði verið kominn yfir línuna og leikurinn í raun úti.

Það sem eftir lifði leiks reyndu stelpurnar að bæta við marki en það gekk ekki og lokatölur því 1-4. Þrjú sterk stig í hús og það sem meira er þá tapaði Stjarnan gegn Val í kvöld og ÍBV gerði jafntefli gegn Grindavík. Þór/KA er því með 8 stiga forskot á toppnum þegar 5 umferðir eru eftir í deildinni og eru því komnar í magnaða stöðu fyrir lokasprettinn, áfram Þór/KA!