Þór/KA gerði jafntefli við Fylki

Sandra María heldur áfram að skora
Sandra María heldur áfram að skora

Topplið Þór/KA fékk spútniklið síðasta árs Fylki í heimsókn í kvöld, okkar lið ósigrað á toppnum en Fylkisstúlkur með 3 stig og reiknuðu því flestir með sigri okkar liðs. Sú varð hinsvegar ekki raunin, eftir frekar dapran leik urðu liðin að skipta stigunum á milli sín.

Þór/KA 1-1 Fylkir
1-0 Sandra María Jessen ('44)
1-1 Sandra Sif Magnúsdóttir ('90)

Fyrri hálfleikurinn var frekar daufur, bæði lið reyndu að fóta sig á vellinum en vantaði líklegast þolinmæði sem varð til þess að báðum liðum gekk illa að halda boltanum og skapa færi, lið Þórs/KA réð þó ferðinni og var meira ógnandi.

Á lokamínútum fyrri hálfleiksins sóttu okkar stúlkur hart að Fylkisstúlkum sem endaði með því að Sarah Miller átti góðan sprett þar sem hún tætti í sundur Fylkisvörnina og lagði boltann út í teig. Þar beið engin önnur en Sandra María Jessen og hún skilaði boltanum í netið af öryggi enda hefur Sandra verið í miklu markastuði undanfarið.

Síðari hálfleikur spilaðist ákaflega svipað og sá fyrri, leikurinn lokaður og lítið um gott samspil og að liðin næðu að halda boltanum. Áfram var þó okkar lið sterkari aðilinn og hefðu hæglega getað bætt við marki.

Það voru hinsvegar Fylkisstelpur sem komu boltanum í markið og það var eftir hornspyrnu, mikill barningur var í teignum og boltinn endaði í netinu. Ekki sá ég það nógu vel hver það var sem ýtti boltanum inn en einhverjir vildu meina að Sandra Sif Magnúsdóttir hafi einfaldlega skorað beint úr horninu.

Klara Lindberg reyndi að svara strax með skalla á 90. mínútu en Eva Ýr í markinu greip boltann. Eva Ýr svo sannarlega betri en engin í markinu og á stóran þátt í því að Fylkisliðið sótti stig í þessum leik.

Sóknarleikurinn hefur oft verið beittari hjá Þór/KA heldur en í dag, þá var sérstaklega dýrt hve erfiðlega gekk að ná góðum fyrirgjöfum, flestar fyrirgjafirnar voru of lágar eða fóru of langt frá markinu.

Jafntefli því staðreynd sem verður að teljast ansi svekkjandi enda liðið betri aðilinn í dag. Ótrúlegt en satt þá var það sóknarleikurinn sem stóð ekki fyrir sínu í dag en þetta er enginn heimsendir, liðið er enn ósigrað og nú bíðum við bara og sjáum hvar liðið stendur þegar aðrir leikir í umferðinni eru búnir.