Það var sannkölluð úrslitastemming í Boganum í dag þegar Þór/KA og Stjarnan mættust í úrslitaleik deildarbikarsins. Það er óhætt að segja að lukkan hafi verið á bandi Stjörnukvenna í upphafi leiks en þær fengu tvö mörk af ódýrara taginu á fyrsta hálftíma leiksins.
Þór/KA 2 - 2 Stjarnan (Þór/KA vann 4-2 í vítakeppni)
0-1 Katrín Ásbjörnsdóttir ('6)
0-2 Harpa Þorsteinsdóttir ('27)
1-2 Sandra Mayor ('31, víti)
2-2 Andrea Mist Pálsdóttir ('77)
Helena Jónsdóttir markvörður Þór/KA meiddist í aðdraganda fyrra marksins þannig að Katrín Ásbjörnsdóttir skoraði í autt markið. Helena varð í kjölfarið að yfirgefa völlinn og kom Sara Mjöll Jóhannsdóttir í markið. Henni urðu á mistök sem Harpa Þorsteinsdóttir var snögg að nýta sér og staðan orðin 0-2 fyrir Stjörnuna.
Stuttu síðar fékk Þór/KA vítaspyrnu og Sandra Major gerði engin mistök og minnkaði muninn í 1-2. Áfram hélt krafturinn í heimastúlkum sem skilaði jöfnunarmarki frá Andreu Mist Pálsdóttur, beint úr hornspyrnu.
Lokatölur því 2-2 að loknum venjulegum leiktíma og því gripið til vítaspyrnukeppni. Þar bætti Sara Mjöll heldur betur fyrir mistökin fyrr í leiknum og varði tvær vítaspyrnur Stjörnukvenna á meðan heimakonur skoruðu úr öllum sínum og unnu að lokum 6-4
Arna Sif Ásgrímsdóttir, Ariana Calderon, Lillý Rut Hlynsdóttir og Lára Einarsdóttir skoruðu úr sínum vítum fyrir Þór/KA en Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir og Guðmunda Brynja Óladóttir skoruðu fyrir Stjörnuna.
Við óskum stelpunum í Þór/KA til hamingju með glæsilega byrjun á tímabilinu.