Þór/KA var nú rétt í þessu að vinna stórsigur á sterku liði Vals 4-0. Fyrir leikinn voru Valsstelpur í harðri baráttu á toppnum eftir sigur á Stjörnunni í síðustu umferð og var því búist við erfiðum leik.
Þór/KA 4 - 0 Valur
1-0 Anna Rakel Pétursdóttir ('10)
2-0 Sandra Stephany Mayor Gutierrez ('23)
3-0 Anna Rakel Pétursdóttir ('56)
4-0 Sandra María Jessen ('87)
Ekki þurftu áhorfendur að bíða lengi eftir fyrsta markinu en Anna Rakel Pétursdóttir reyndi fyrirgjöf sem sveif yfir Söndru í marki gestanna og úr varð glæsimark strax á 10. mínútu. Lið Þór/KA hafði byrjað leikinn mun betur og átti alveg skilið að komast yfir snemma.
Sandra Mayor tvöfaldaði svo forystuna á 23. mínútu þegar há sending frá Láru Einarsdóttur fór yfir vörn gestanna og Sandra gerði vel með því að renna knettinum í netið en hún hefði hæglega getað skorað einni mínútu fyrr eftir klafs í teignum. Frábær byrjun hjá stelpunum og staðan góð.
Áfram héldu stelpurnar að þjarma að Valsliðinu og sýndu svo sannarlega að þær eru með hörkulið sem á heima í toppbaráttunni. Sandra Mayor gerði sig svo líklega aftur skömmu síðar en tókst ekki að koma skoti á markið og þá slapp Sandra María Jessen í gegn en skot hennar fór í stöngina og út. Hálfleikstölur því 2-0 fyrir Þór/KA.
Síðari hálfleikur spilaðist svo svipað og sá fyrri, okkar stelpur miklu betri og líklegri til að bæta við mörkum og það gekk svo sannarlega upp. Anna Rakel gerði sitt annað mark í leiknum þegar hún ákvað að láta vaða á markið fyrir utan teiginn og staðan orðin 3-0 en skömmu áður hafði skot frá Zaneta Wyne farið í slánna og út af stuttu færi.
Sandra Sigurðardóttir í marki Vals gerði vel í nokkur skipti í að koma í veg fyrir fleiri mörk okkar liðs en Söndrurnar tvær í okkar liði (Sandra Mayor og Sandra María) þjörmuðu að henni mest allan leikinn.
Á 86. mínútu áttu gestirnir loksins alvöru færi en Margrét Lára Viðarsdóttir sneri á tvo varnarmenn en kom ekki skoti sínu á markið. Strax á eftir tókst Söndru Maríu að skora en það hafði legið í loftinu að hún myndi setja mark sitt á leikinn. Nafna hennar Mayor átti fyrirgjöf sem einmitt nafna hennar í marki gestanna sló illa frá og Sandra María lúrði á fjær og lagði boltann í netið.
4-0 sigur staðreynd og ótrúlegt en satt þá hefði hann getað verið töluvert stærri. Spilamennska liðsins í dag var algjörlega frábær og ljóst að ef liðið heldur þessum dampi út tímabilið geta stelpurnar hæglega klifið hærra upp töfluna.