Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu lék í dag æfingaleik gegn því Norska en leikurinn fór fram á Spáni. Íslandsmeistaralið Þórs/KA átti hvorki fleiri né færri en 3 fulltrúa í íslenska liðinu en það voru þær Sandra María Jessen, Anna Rakel Pétursdóttir og Andrea Mist Pálsdóttir.
Ísland 1 - 2 Noregur
1-0 Fanndís Friðriksdóttir ('3)
1-1 Synne Jensen ('42)
1-2 Synne Jensen ('61)
Þær Sandra María og Anna Rakel voru báðar í byrjunarliðinu og Sandra var sko ekki lengi að þakka traustið. Strax á 3. mínútu þegar hún lagði upp fyrir Fanndísi Friðriksdóttur sem skoraði og algjör draumabyrjun staðreynd gegn ógnarsterku liði Norðmanna.
Leikurinn var nokkuð fjörugur og var góð barátta í íslenska liðinu. Útlit var fyrir að stelpunum tækist að halda forskotinu út fyrri hálfleik enda hafði liðið verið að verjast vel en á 42. mínútu tókst Synne Jensen að jafna metin og staðan því 1-1 þegar flautað var til hálfleiks.
Í upphafi síðari hálfleiks átti Anna Rakel góða aukaspyrnu og skapaðist mikil hætta í teig Norðmanna en inn vildi boltinn ekki. Sandra María var tekin af velli á 58. mínútu en hún hafði átt fínan leik og sýndi mikla baráttu.
Synne var svo aftur á ferðinni fyrir þær Norsku á 62. mínútu og staðan því orðin 1-2. Stuttu síðar kom Andrea Mist inná og fengu því allir fulltrúar Þórs/KA að spila í leiknum. Íslenska liðið reyndi hvað það gat að jafna metin en það tókst því miður ekki og 1-2 tap staðreynd.
Spilamennska liðsins var flott og þegar tekið er tillit til þess að andstæðingurinn í dag var mjög öflugur og um æfingaleik var að ræða verður að viðurkennast að dagsverkið var mjög gott hjá íslenska liðinu.
Þetta var fyrsti A-landsleikur þeirra Önnu og Andreu og óskum við þeim til hamingju með áfangann. Á sama tíma var þetta 21. landsleikur Söndru Maríu.