Kvennalið Þórs/KA heldur áfram magnaðri sigurgöngu sinni en í dag sló liðið út ríkjandi Bikarmeistara Breiðabliks í 16-liða úrslitum Borgunarbikarsins með sterkum 1-3 sigri í Kópavogi.
Breiðablik 1 - 3 Þór/KA
0-1 Sandra Mayor ('24)
0-2 Sandra Mayor ('43)
1-2 Svava Rós Guðmundsdóttir ('51)
1-3 Sandra Mayor ('73)
Umfjöllun RÚV um leikinn
Það var búist við hörkuleik enda liðin í toppbaráttu í Pepsi deildinni og byrjuðu heimastúlkur af krafti enda ætluðu þær sér að verja Bikartitil sinn. Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir var hinsvegar öflug í markinu að venju og sá hún til þess að skottilraunir Blika stoppuðu á henni.
Það var svo á 24. mínútu að Borgarstjórinn skoraði stórglæsilegt mark en Sandra Mayor tók boltann niður fyrir utan teig eftir sendingu frá Huldu Ósk og þrumaði að marki af stakri snilld og Sonný Lára átti ekki möguleika í markinu. Markið kom kannski aðeins gegn gangi leiksins en Sandra Mayor hefur sýnt það að hún þarf ekki mikil til að skila boltanum í netið.
Áfram héldu Blikar að vera mikið með boltann og reyna að svara fyrir markið en vörn Þórs/KA var sterk og ljóst að Donni hafði undirbúið liðið vel fyrir átök dagsins. Stelpurnar fengu svo vítaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks þegar Hulda Ósk var felld innan teigs og Sandra Mayor skoraði að sjálfsögðu og tvöfaldaði forskotið.
Hálfleikstölur 0-2 og útlitið gott en heimastúlkur komu sér inn í leikinn strax á 51. mínútu þegar Svava Rós Guðmundsdóttir skoraði eftir laglegt upphlaup og enn nóg eftir af leiknum.
En stelpurnar voru ekki á því að missa forystuna niður og það var á endanum Sandra Mayor sem fullkomnaði þrennuna með góðu skoti eftir að hafa leikið framhjá vörn Blika.
Stelpurnar gerðu svo vel í að sigla sigrinum heim og 1-3 sigur staðreynd. Mögnuð frammistaða liðsins heldur áfram og er erfitt að sjá eitthvað lið stoppa þessa sigurgöngu. Liðið er á toppnum með fullt hús stiga og er komið í 8-liða úrslit bikarsins eftir að hafa fellt ríkjandi meistara út. Algjörlega frábært.