Þjálfaraskipti hjá KA

Bjarni og Tufa
Bjarni og Tufa

Eins og fram hefur komið rennur starfssamningur Bjarna Jóhannssonar hjá knattspyrnudeild KA út í haust. Stjórn knattspyrnudeildar KA hefur ákveðið að leita á ný mið í haust hvað þjálfun meistaraflokks félagsins ræðir. Í ljósi þessa hafa aðilar orðið ásáttir um Bjarni hætti þjálfun liðsins og að Srdjan Tufedgzic (Tufa) aðstoðarþjálfari KA taki við keflinu og muni stýra liðinu út tímabilið. Fyrsti leikur Tufa með liðið er n.k. föstudag þegar KA leikur við lið Selfoss á Selfossi.

„Þessi ákvörðun er tekin í mesta bróðerni og vináttu“ segir Eiríkur S. Jóhannsson formaður stjórnar knd. KA. „Bjarni hefur unnið gott starf hjá félaginu og hjálpað okkur við að undirbyggja félagið til frekari átaka og sést góður árangur starfa hans fyrir KA í okkar góðu umgjörð í félaginu. Að sjálfsögðu er það okkur jafnt sem honum vonbrigði að við séum ekki á betri stað í deildinni en raun ber vitni en liðið sem hann hefur mótað er sterkt og enn eru stig í pottinum sem þarf að ná í hús. Það hefur verið mjög gaman að vinna með Bjarna, sem er frábær þjálfari auk þess að vera mikill og dyggur KA maður. Ég vil þakka honum kærlega fyrir samstarfið og veit að KA fólk mun taka vel á móti Bjarna í KA heimilinu og á vellinum í framtíðinni. Um leið óska ég Tufa alls hins besta í því starfi sem hann er nú að taka sér fyrir hendur. Við þekkjum vel til starfa hans og munum styðja vel við hann og strákana í átökunum sem framundan eru“.

„Mér hefur liðið mjög vel hjá KA þessi þrjú ár sem ég hef verið hér. Hér hafa allir lagst á eitt við að byggja upp liðið og þá einstaklinga sem í því eru. KA hefur sjaldan staðið eins vel hvað mannskap varðar, hvort heldur sem er í meistaraflokki félagsins eða yngri flokkum. Ég hef haft mikinn metnað fyrir hönd félagsins og því ekki sáttur hve erfiðlega okkur hefur gengið að ná því markmiði að koma liðinu í hóp bestu liða landsins. Ég taldi best fyrir félagið og strákana í liðinu, að gefa Tufa tækifæri á að taka við stjórninni á liðinu og kalla fram kraftinn sem í liðinu býr. Ég er ánægður með að stjórn deildarinnar var mér sammála enda Tufa er topp maður sem hefur staðið þétt með mér í starfi mínu hjá félaginu og hann á framtíðina tvímælalaust fyrir sér sem stjórnandi knattspyrnuliðs á hæsta gæðaflokki. Ég óska honum og KA góðs gengis í framtíðinni“.