KA og Víkingur Ó. mættust í dag á KA-vellinum í fyrsta leik sumarsins. Leikurinn var spilaður á nýja gervigrasvelli okkar KA manna og var ágætlega mætt á völlinn. Staðan í hálfleik var markalaus en í síðari hálfleik komu mörkin á færibandi og lauk leiknum með 2-3 sigri gestanna frá Ólafsvík.
KA 2 3 Víkingur Ó.
0 1 Steinar Már Ragnarsson (51)
0 2 Eyþór Helgi Birgisson (72)
0 3 Antonio Espinosa Mossi (82)
1 3 Gunnar Örvar Stefánsson (85) Stoðsending: Jói Helga
2 3 Arsenij Buinickij (88) Stoðsending: Hallgrímur
Lið KA í dag:
Fannar, Baldvin, Atli Sveinn, Gauti, Jón Heiðar, Davíð (Bjarni 69.mín), Jói Helga, Orri (Gunnar 69. mín), Ævar, Hallgrímur og Arsenij.
Bekkur: Rajko, Ólafur Hrafn, Gunnar Örvar, Kristján Freyr, Bjarni Mark, Úlfar og Bjarki Viðars.
Alls voru þrír leikmenn að spila sinn fyrsta leik í íslandsmóti fyrir KA en það voru þeir Arsenij, Bjarni Mark og Gauti. Níu af ellefu leikmönnum KA sem hófu leik fyrir KA í dag eru uppaldir og er það gríðarlega jákvæð þróun. Sjö leikmenn úr 2. flokki voru í leikmannahóp hjá KA í dag. Hrannar Björn var ekki með í dag vegna leikbanns frá síðasta keppnistímabili en verður klár í næsta leik.
Leikurinn hófst á rólegu nótunum og var boltinn ekki mikið á jörðinni fyrsta hálftíma leiksins. KA voru aðeins meira með boltann án þess þó að skapa sér nein hættuleg færi. Ólsarar voru gríðarlega hættulegir í hröðum skyndisóknum sínum og á 21. mínútu kom langur bolti frá kantinum inn í teig á Eyþór Helga sem tók vel á móti boltanum og náði hörku skoti að marki en Fannar varði frábærlega í horn.
Skömmu fyrir hálfleik fengu Ólsarar algjört dauðafæri þegar að Steinar Már þeirra lang besti maður í leiknum slapp einn í gegn eftir barning á miðjunni en Fannar varði meistaralega og kom í veg fyrir að gestirnir kæmust yfir.
KA voru hættulegir í föstum leikatriðum en þó vantaði alltaf herslumunin til að markið myndi detta. Staðan í hálfleik markalaus.
Í síðari hálfleik var hinsvegar allt annað upp á teningnum og hófu gestirnir hann af miklum krafti og réðu lögum og lofum. Fyrsta mark leiksins kom á 51. mínútu þegar að Emir Dokara átti góðan sprett upp vinstri kantinn og lék á Gauta og gaf fyrir á Steinar Má sem var aleinn inn á markteig og skallaði boltann auðveldlega í fjærhornið af stuttu færi.
Áfram héldu svo gestirnir að beita hættulegum skyndisóknum og kom mark upp úr einni slíkri á 72. mínútu þegar að Eyþór Helgi fékk boltann ofarlega á vallarhelmingi KA manna og lék illa á tvo varnarmenn KA og kláraði færið snyrtilega í teignum framhjá Fannari. Verðskulduð forysta gestanna sem mættu einbeittir í seinni hálfleikinn á meðan að KA liðið var hálf sofandi.
Tíu mínútum síðar juku gestirnir forystuna enn frekar þegar að besti maður vallarins Steinar Már átti góðan sprett upp vinstri kantinn og gaf fyrir á Antonio Espinosa Mossi sem fékk nægan tíma inn í teig KA og skaut öruggu skoti í vinstra hornið á marki KA og kom gestunum í 3-0.
Við þriðja mark Ólsarar virtist sem KA menn hefðu vaknað af værum blundi og náði Gunnar Örvar að koma KA á blaði aðeins þremur mínútum síðar. Jóhann Helgason tók þá aukaspyrnu út á miðjum velli sem rataði beint á kollinn á Gunnari sem skallaði boltann í netið úr teignum. Gunnar átti góða innkomu í leikinn og hleypti lífi í sóknarleik KA síðustu mínútur leiksins.
Undir lokinn náði svo nýjasti leikmaður KA, Arsenij Buinickij að hleypa smá spennu í leikinn með því að minnka muninn í 2-3. Jóhann Helgason átti þá hornspyrnu þar sem boltinn barst til Hallgríms á fjærstönginni sem reyndi skot að marki sem Arsenij stýrði í markið.
KA reyndu hvað þeir gátu til að jafna leikinn undir restina og var Gunnar Örvar nálægt því að bæta við þriðja markinu í uppbótartíma en varnarmaður Ólsara gerði vel að renna sér fyrir boltann þegar Gunnar reyndi skot að marki rétt fyrir utan teig.
Tap í fyrsta leik því staðreynd. Liðið lék langt frá sínu besta í síðari hálfleik og byrjuðu raunar ekki seinni hálfleikinn fyrr en gestirnir höfðu komist í 0-3 og var það því miður of seint. Ef leikurinn hefði verið fimm mínútum lengri hefði jöfnunarmarkið klárlega komið.
KA-maður leiksins: Arsenij Buinickij ( Var sprækur í sínum fyrsta leik fyrir KA. Skapandi og duglegur) Einnig átti Gunnar Örvar góða innkomu af bekknum hleypti lífi í sóknarleik KA.
Ekki er langt í næsta leik því hann verður á þriðjudaginn þegar að við tökum á móti Magna í Borgunarbikarnum á KA-vellinum kl. 19.15 og hvetjum við alla til að leggja leið sína á völlinn og styðja KA til sigurs.