KA 0 - 1 Víkingur R.
0-1 Pape Mamadou Faye ('19)
Lið KA í dag: Sandor Matus, Ómar Friðriksson, Atli Sveinn Þórarinsson, Ivan Dragicevic, Kristján Freyr Óðinsson, Brian Gilmour (Bessi 72.mín), Mads Rosenberg (Davíð Rúnar 25.mín), Jakob Hafsteinsson (Orri 81.mín), Hallgrímur Mar Steingrímsson, Bjarki Baldvinsson, Carsten Pedersen.
Bekkur: Andrés Vilhjálmsson, Orri Gústafsson, Bessi Víðisson, Davíð Rúnar Bjarnason, Jón Heiðar Magnússon, Gunnar Örvar Stefánsson, Fannar Freyr Gíslason.
Leikurinn hófst heldur rólega og var lítið um marktækifæri á upphafsmínútunum. Víkingar voru töluvert meira með boltann án þess þó að skapa sér hættuleg færi. Víkingar virkuðu þó alltaf líklegri og skilaði það sér í marki sem kom á 19. mínútu. Dofri Snorrason slapp þá einn í gegn á móti Sandor og renndi boltanum til hliðar á Pape Mamadou Faye sem þurfti aðeins að renna boltanum yfir línuna og gestirnir komnir yfir eftir 19. mínútna leik. Dofri var alveg á mörkunum að vera rangstæður í aðdraganda marksins en aðstoðardómarinn hélt flagginu niðri og markið stóð.
Besta færi KA í fyrri hálfleik og raun eina hættulega færi KA í fyrri hálfleik kom á 35. mínútu þegar að Ómar geystist upp kantinn og átti fyrirgjöf sem endaði að lokum hjá Hallgrími Mar sem skaut boltanum að marki þar sem boltin átti viðkomu í varnarmanni Víkinga og endaði hárfínt framhjá. Eftir að Víkingar komust yfir fóru KA að sækja meira og voru hættulegir það sem eftir lifði fyrri hálfleiks. En Víkingar áttu þó eftir að fá algjört dauðafæri þegar Ivan Dragicevic átti slæma sendingu sem leiddi til þess að Sigurður Egill Lárusson slapp aleinn inn fyrir og hafði mikinn tíma til að athafna sig en Sandor lokaði vel á hann og varði meistaralega og bjargaði því að Víkingar bættu við. Eftir þetta fjaraði leikurinn út og gestirnir leiddu í hálfleik 1-0.
Síðari hálfleikur hófst eins og sá fyrri með miklum sóknarþunga frá spræku liði Víkinga. En þeir Pape Mamadou Faye og Dofri Snorrason voru afar líflegir í sóknarlínu Víkinga. Og voru þeir tveir einmitt arkítektarnir að því þegar að Víkingar fengu algjört dauðafæri á 50. mínútu þegar að Dofri átti góða sendingu inn fyrir á Pape sem skaut framhjá. Við þetta vöknuðu KA menn heldur betur til lífsins og sóttu að krafti og voru mikið mun betri það sem eftir lifði leiks.
Á 60. mínútu gerðist umdeilt atvik þegar að varnarmaður Víkinga tók boltan með hendinni inn í vítateig og vildu leikmenn KA menn fá vítaspyrnu. Að mínu mati var um vítaspyrnu að dæma þar sem að leikmaður Víkings hagnaðist á því að setja höndina út í boltan burt séð frá því að hann hafi verið með hana nálægt líkamanum. En dómari leiksins Valdimar Pálsson dæmdi ekkert. Áfram héldu KA menn að sækja og átti Hallgrímur Mar hörkuskot sem fór hárfínt framhjá eftir hornspyrnu frá Brian.
Sóknarþungi okkar manna hélt áfram að aukast en liðið náði þó ekki að skapa sér nein hættuleg marktækifæri fyrr en á 87. mínútu þegar að Hallgrímur Mar tók aukaspyrnu af löngu færi og small boltinn í þverslánni. Stórhættuleg spyrna og átti Ingvar Kale markvörður Víkinga sem kvartað hafði undan meiðslum fyrr í leiknum engan möguleika en marksláin bjargaði Víkingum fyrir horn.
Það var svo á 90. mínútu venjulegs leiktíma þegar að afar umdeilt atvik átti sér stað. Ivan Dragicevic tók hornspyrnu fyrir KA og endaði boltinn ásamt fjöldanum öllum af leikmönnum KA og Víkings á marklínu gestana og úr varð mikill barningur og vildu leikmenn KA meina að boltinn hefði farið inn fyrir línuna en það var ómöglegt að sjá það úr stúkunni fyrir allri hrúgunni og dómarar leiksins mátu það svo að hann hefði ekki farið allur inn fyrir.
Þegar að 5. mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma fengu KA menn aukaspyrnu út við hliðarlínu sem Ivan Dragicevic tók og boltinn skoppaði framhjá öllum inn í teignum og endaði í innanverðri stönginni og Víkingar náðu að hreinsa og í sömu andrá flautaði Valdimar Pálsson til leiksloka. Gríðarlega svekkjandi að ná ekki jafna leikinn undir lokin. En sanngjarn sigur Víkinga staðreynd sem voru eindaldlega betri lungan úr leiknum en KA voru óheppnir að ná ekki að jafna undir lokin.
Næsti leikur KA er síðan á föstudaginn næsta á útivelli gegn Haukum og hvetjum við alla sem eru staddir á höfðuborgarsvæðinu að mæta og styðja við bakið á liðinu á Schenkervellinum á Ásvöllum í Hafnarfirði.
Maður Leiksins: Sandor Matus. (Sandor var mjög góður í marki KA í dag og varði oft á tíðum meistaralega í algjörum dauðafærum.)
Aðalsteinn Halldórsson.