Stórsigur Þór/KA á Grindavík

Sandra María gerði þrennu í þessum stórsigri
Sandra María gerði þrennu í þessum stórsigri

Kvennalið Þórs/KA vann í kvöld stórsigur á Grindavík og er því áfram á toppi Pepsi deildarinnar með fullt hús. Þetta er ótrúleg byrjun hjá liðinu og þær halda áfram að gera lítið úr spám sérfræðinga fyrir mót.

Þór/KA 5 - 0 Grindavík
1-0 Sandra Mayor ('11)
2-0 Sandra María Jessen ('15)
3-0 Sandra María Jessen ('43)
4-0 Sandra María Jessen ('84)
5-0 Linda Eshun ('89, sjálfsmark)

Stelpurnar byrjuðu af miklum krafti og var ljóst að landsleikjahléið hafði ekki dregið neitt úr liðinu. Það varð alveg ljóst að það yrði stutt í fyrsta markið. Það kom ekki á óvart að það væri Borgarstjórinn sjálfur, Sandra Mayor, sem gerði það en Sandra María Jessen renndi boltanum fyrir markið og Mayorinn skoraði auðveldlega.

Járnið var svo hamrað meðan það var enn heitt því Sandra María skoraði strax fjórum mínútum síðar með stórglæsilegu skoti óverjandi fyrir Emmu Mary í markinu eftir fyrirgjöf frá Huldu Björgu Hannesdóttur. Staðan orðin 2-0 og í raun eina spurningin hversu stór sigurinn yrði.

Eitthvað þurftum við þó að bíða eftir næsta marki en það gerði Sandra María skömmu fyrir hálfleik þegar hún brunaði ein í gegn og renndi boltanum af stakri snilld í markið. Hálfleikstölur 3-0 og yfirburðirnir miklir.

Það styttist í EM hjá landsliðinu og það veit fyrirliðinn Sandra María vel og hún ætlar sér svo sannarlega að vera í lokahópnum. Hún var stórhættuleg í leiknum og þrennan lá í loftinu, hún kom loks á 84. mínútu þegar hún skoraði með skalla eftir hornspyrnu.

Linda Eshun varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark undir lok leiks og 5-0 sigur Þórs/KA staðreynd. Sigurinn ákaflega sannfærandi og erfitt að sjá eitthvað lið stöðva þær í þessum ham.

Stelpurnar eru því enn með fullt hús stiga og nú eftir 8 umferðir. Þessi stórkostlega byrjun heldur því áfram en alls eru 18 umferðir í deildinni og því er mótið að verða hálfnað. Það er þó enn nóg eftir og vonandi að stelpurnar haldi áfram á þessari siglingu, algjörlega frábærar!