Það er enginn smá leikur á morgun hjá strákunum þegar KA mætir suður og leikur gegn stórliði KR. Bæði lið hafa farið rólegar af stað heldur en ætlunin var og því ljóst að það eru mjög mikilvæg 3 stig í boði í slag liðanna á morgun en leikurinn hefst klukkan 17:00.
KR er í 7. sæti með 6 stig á meðan KA er í 10. sæti með 5 stig, deildin hefur þó farið ótrúlega jafnt af stað og þrátt fyrir að KA sé í 10. sæti eru aðeins 2 stig upp í 4. sætið.
Liðin gerðu markalaust jafntefli fyrir sunnan í fyrra en í leik liðanna á Akureyrarvelli var töluvert meira fjör en þá unnu KR-ingar 2-3 sigur þar sem Elfar Árni Aðalsteinsson gerði bæði mörk okkar KA manna en þeir Tobias Thomsen, Kennie Chopart og Óskar Örn Hauksson gerðu mörk gestanna.
Við hvetjum að sjálfsögðu alla KA menn fyrir sunnan til að drífa sig á völlinn og styðja strákana til sigurs. Tufa og strákarnir eru klárir í slaginn og ætla sér sigurinn, áfram KA!