Nýkrýndir Deildarmeistarar KA sóttu nágranna sína í Þór heim á laugardaginn í lokaumferð Inkasso deildarinnar. Þó staðan í deildinni hafi verið ráðin var montrétturinn í bænum undir en KA hafði fyrir leikinn unnið síðustu þrjár viðureignir liðanna, þar á meðal 0-3 sigur á Þórsvelli í fyrra.
Þór 0 - 3 KA
0-1 Almarr Ormarsson ('4)
0-2 Juraj Grizelj ('11)
0-3 Bjarki Þór Viðarsson ('86)
Ef einhver hafði áhyggjur af því að lið KA myndi mæta værukært til leiks þá sló liðið alveg á slíkar áhyggjur þegar Almarr Ormarsson skoraði fyrsta mark leiksins strax á 4. mínútu. Juraj Grizelj gerði vel í að koma af kantinum og lagði boltann fyrir markið og Almarr réttur maður á réttum stað og kláraði glæsilega.
Áfram héldu KA menn að þjarma að Þórsurum og ljóst að fleiri gul og blá mörk myndu líta dagsins ljós. Það kom á daginn en á 11. mínútu slapp Juraj Grizelj í gegn og lagði boltann snyrtilega í markið og fjölmargir KA menn fögnuðu innilega með því að opna sér Pepsi.
Heimamenn reyndu að koma sér aftur inn í leikinn en okkar menn voru komnir með gott tak á leiknum og buðu Þórsurum hreinlega ekki upp á það að taka almennilega þátt í leiknum. Ásgeir Sigurgeirsson kom sér í gegn á 35. mínútu og Kristinn Þór Björnsson felldi hann en ekkert var dæmt flestum til mikillar furðu.
Staðan var því 0-2 í hálfleik og eina spurningin í raun var hve mörg mörk KA myndi bæta við í þeim síðari. Almarr komst nálægt því þegar hann átti skot í stöngina en Almarr var mjög beittur í leiknum.
Sandor Matus markvörður Þórsara fékk svo heiðursskiptingu á 61. mínútu en hann er að leggja hanskana á hilluna. Sandor kom til KA árið 2004 og lék með liðinu allt þar til hann fór hinum megin við ána árið 2014. Algjörlega frábær hann Sandor og gaman að sjá hann fá þann heiður sem hann á skilið.
Áfram þurftu KA menn að bíða eftir þriðja markinu en það lá svo sannarlega í loftinu, liðið fékk fjölmörg færi og átti Elfar Árni meðal annars bæði skot í stöng og slá og þá átti Ólafur Aron einnig skot í stöngina á 77. mínútu.
Bjarki Þór Viðarsson var svo maðurinn sem gladdi gula og bláa í stúkunni þegar hann slapp í gegn og átti skot sem Aron Birkir í markinu réð ekki við. Öruggur 0-3 sigur staðreynd á Þórsvelli sem er frábær endir á frábæru tímabili.
KA-maður leiksins: Juraj Grizelj (Hóf leikinn á að leggja upp fyrir Almarr og skoraði svo sjálfur stuttu síðar. Var síógnandi og gerði Þórsurum lífið leitt, einfaldlega frábær í glæsilegum sigri)
KA liðið var einfaldlega langbesta liðið í Inkasso deildinni í ár. Liðið endar með 51 stig, 9 stigum fyrir ofan 2. sætið og 16 stigum fyrir ofan 3. sætið. KA hélt hreinu í 11 leikjum af 22 í deildinni sem er frábær árangur og við bíðum einfaldlega spennt eftir því að sjá liðið leika meðal þeirra bestu eftir langa bið, áfram KA!