Stólarnir sóttir heim á morgun

Bessi Víðisson í leiknum gegn BÍ/Bolungarvík. Mynd/Þórir Tryggva.
Bessi Víðisson í leiknum gegn BÍ/Bolungarvík. Mynd/Þórir Tryggva.

Á morgun leggur liðið í ferð til Skagafjarðar, nánar tiltekið til Sauðárkróks og etur kappi við Tindastól í 8. umferð. Leikurinn verður flautaður á kl. 19.15. Um er að ræða fyrsta eiginlega heimaleik Tindastóls en þeir hafa ekki getað spilað heimaleiki sína á sínum heimvelli til þessa vegna þess hversu illa hann kom undan vetri. Við hvetjum sem flesta að gera sér ferð á leikinn og styðja við bakið á liðinu.

Sauðkrækingar fóru nokkuð vel af stað í mótinu í ár og voru taplausir eftir fyrstu þrjár umferðirnar og unnu meðal annars góðan útisigur gegn Þrótturum. En í rauninni hafa þeir ekki spilað einn einasta heimaleik það sem af er móti vegna lélegs ástands á Sauðárkróksvelli sem eins og áður sagði kom skelfilega illa undan vetri líkt og aðrir vellir á Norðurlandi. Aðeins tveir leikir hafa verið skráðir heimaleikir þeirra en þeir voru spilaðir í Boganum og á Blönduósvelli. Tindastóll hefur því leikið 5 útileiki af 7 leikjum sem spilaðir hafa verið í deildinni og setur það eflaust strik í reikningin í stigasöfnun hjá Skagfirðingum enda hefur heimavöllurinn reynst þeim afar vel síðastliðin ár.

Þjálfari Tindastóls er Halldór Jón Sigurðsson og er hann á sínu þriðja ári sem þjálfari liðsins. Tindastól hefur líkt og KA gengið brösulega í markaskorun það sem af er tímabili og aðeins skorað 6 mörk og fengið á sig 10. Tindastóll syrkti sig með þremur leikmönnum fyrir tímabilið. En það voru þeir Ruben Resendes, Christopher Tsonis og fyrrum leikmaður KA, Elvar Páll Sigurðsson sem gengu til liðs við Stólana. Atkvæðamestir á stólunum í sumar hafa verið framherjinn Steven Beattie sem hefur skorað 3 mörk og Elvar Páll Sigurðsson sem skorað hefur 2 mörk og leikið vel.

Líkt og fyrir síðustu leiki hjá KA höfum við fengið valinkunna einstaklinga til að spá fyrir um komandi leik hjá KA og reyna að geta um úrslit leiksins. Fyrir síðasta leik voru allir þrír með sigurvegara leiksins réttann en enginn með hárrétt úrslit og bíðum við en eftir að einhver gerist svo sannspár.

Spámenn umferðinnar:

Sigurður Skúli Eyjólfsson, KA-maður: 

Nú er það einn af Derby leikjunum hérna á norðurlandinu sem framundan er og í þessum leikjum þarf að berjast, það er ekki nóg að vera góður í fótbolta. Þessi leikur leggst vel í undirritaðann eftir sigurleik á móti BÍ. Allir KA menn trúa ekki öðru en að það býr meira í liðinu en sýnt hefur verið í sumar. Það er ekki auðvelt að koma á krókinn og taka þrjú stig með sér heim en ef leikmenn eru vel stemmdir, vanmeta ekki „litlu“ liðin og eru tilbúnir að gefa sig í verkefnið þá er allt hægt. Þetta snýst um að safna stigum allt tímabilið.

Ég spái því að sama uppstilling verði á byrjunarliðinu á í síðasta leik og leikurinn endi 1-2. Leikurinn verður nokkuð opinn og KA hafa yfirhöndina heilt yfir en þó munu Stólarnir eiga sín færi. Nú er komið að Carsten að skora sitt fyrsta mark fyrir liðið ásamt því að Orri (já ég er bjartsýnn, sorry Orri) skori annað markið áður en honum verður skipt útaf. Ég vona svo sannarlega að Addi Villa sem er búinn að vera að bekknum að tjilla komi til með að fá 25 mínútur. Stólarnir munu svo setja pressu á okkar menn og setja eitt í lokin.

Ég veit ekki hvað heyrist öllu jafna mikið upp í stúku en svo virðist sem það vanti talanda í liðið og örlítið skap í menn. Undirritaður vill reyndar sjá menn kolvitlausa!  Undirritaður verður að nefna sem dæmi að í leiknum á móti Víking hérna heima þá fór Carsten upp í skallabolta og setti líklega olnbogann í einhvern Víkinginn sem datt niður sem dauður væri. Þar komu strax fimm ef ekki sex Víkingar, umkringdu Carsten og fóru að rífa sig en KA mennirnir annaðhvort horfðu á eða fóru til baka. Alvöru lið bakka hvorn annan upp...koma strákar!

Undirritaður hefur mikla trú á þjálfarateyminu sem og leikmönnum.

3 stig heim, áfram KA!

Sigurður Skúli(skapvondi) Eyjólfsson

Sigurður Þorri Gunnarsson, KA-maður: 

Ég er náttúrunlega verri spámaður en guðsmaðurinn sem er búinn að spá heimsendi 50 sinnum en reynum samt! Allir KA leikir leggjast vel í mig! Við erum með flott lið og flotta þjálfara og því er ekki annað hægt heldur en að vera bjartsýnn á þetta. Ég held að við séum komnir á beinu brautina eftir ljúfan sigur s.l. laugardag. 

Þessi leikur verður samt trikký og það má alls ekki vanmeta stólana. Þeir munu örugglega mæta dýrvitlausir til leiks enda eru þessir norðanliða leikir allir nettir derby leikir. Byrjunin verður tens með miklu moði á miðjunni en í seinni hálfleik kemur fútt í þetta. Stjarna Hallgríms Mars heldur áfram að skína í þessum leik og spái ég því að hann hendi í þrennu, allt í seinni hálfleik! Sólarnir ná að klóra í bakkann með einu marki sem kemur uppúr hornspyrnu. Semsagt lokatölur 1-3 fyrir KA! 

Ég vona einnig að við fáum að sjá til míns manns G. Giggs í þessum leik! Ég skora á alla KA menn sem vetlingi geta valdið að gera sér ferð á krókinn, en ef menn ætla að borða þar þá er stranglega bannað að borða við dúkuð borð, það boðar ófgæfu! Áfram KA!

Anna Birna Sæmundsdóttir, KA-kona: 

Leikurinn leggst mjög vel í mig ég er alltaf bjartsýn fyrir leiki og styð og stend með mínum mönnum eins og ég get og ég hlakka mikið til að fylgja KA liðinu og Bjarna Jó. á Krókinn í Fjörðinn fagra þar sem ég er alinn upp.

Þetta verður skemmtilegur leikur að horfa á og skemmtileg spenna í loftinu, KA menn verða sprækir og í miklu stuði sem og Tindastólsmenn líka en KA menn eru komnir í markagírinn og skora allavega 3 mörk þar sem Hallgrímur Mar ætlar allavega að skora eitt ef ekki tvö mörk og svo skorar Orri eitt og svo er spurning hvort Bessi setur eitt eða Carsten og Elvar Páll Skagfirðingurinn eins og ég kallaði hann þegar hann spilaði með KA setur eitt mark fyrir Tindastólsmenn.

Fyrsta markið kemur snemma í leiknum og þetta verður mikill baráttu leikur því Stólarnir gefa ekkert eftir þannig að KA menn verða að verjast vel og Sandor má ekkert gefa eftir í markinu frekar enn fyrri daginn.
Áfram KA!


Við hvetjum síðan alla sem hafa tök á að gera sér ferð á Krókinn annað kvöld og styðja liðið til sigurs í þessum leik. Áfram KA!