Nú er farið að styttast í knattspyrnusumarið og eru bæði KA og Þór/KA í lokaundirbúning fyrir tímabilið. Fyrirliði Þórs/KA hún Sandra María Jessen hefur þó alls ekki verið í venjulegum undirbúningi enda var hún lánuð til Tékkneska stórliðsins Slavia Prag. Lánssamningi hennar lýkur í lok apríl og verður því með Íslandsmeistaraliði Þórs/KA í allt sumar.
Sandra María fór strax inn í liðið hjá Tékkunum og hefur leikið afar vel með liðinu. Nýlega spilaði Slavia Prag gegn stórliði Wolfsburg í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu en með Wolfsburg spilar einmitt landsliðsfyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir.
Þetta hefur þó ekki bara verið skemmtilegt tækifæri fyrir Söndru að vera úti í Prag því liðsfélagi hennar hún Anna Rakel Pétursdóttir skellti sér út í heimsókn og fékk að æfa með liðinu, gefum Önnu Rakel orðið:
Ferðin til Prag var virkilega skemmtileg en það var gaman að upplifa öðruvísi menningu og auðvitað að hitta Söndru. Það var ótrúlega gaman að æfa með Söndru og liðsfélögum hennar í Slavia Prag þar sem æfingarnar voru öðruvísi en ég er vön hér heima.
Leikurinn stóð hins vegar uppúr þar sem við horfðum á Söndru spila á móti Söru Björk, liðsfélaga sínum í landsliðinu. Leikurinn var gríðarlega jafn og skemmtilegur og ekki skemmdi fyrir að hann var spilaður á glæsilegum leikvangi. Ferðin var í heild sinni skemmtileg og ég get ekki beðið eftir því að fá Söndru heim.
Anna Rakel og Sandra María sáttar í Prag
Það var ekki bara Anna Rakel sem sótti Söndru heim en ásamt því að spila með Þór/KA þá hefur hún þjálfað yngri flokka hjá KA undanfarin ár. Þjálfararnir þeir Sindri Már Stefánsson, Atli Fannar Írisarson og Andri Freyr Björgvinsson tóku sig til og kíktu einnig út til að sjá leik hjá henni.
Það var á Herrakvöldi KA sem við fengum þá hugmynd að fara til Prag yfir páskana og horfa á leik hjá Söndru gegn Wolfsburg í Meistaradeildinni. Daginn eftir hittumst við og pöntuðum ferðina. Okkur fannst þetta vera kjörið tækifæri til að hitta á samþjálfara og góða vinkonu og sjá hana spila á þetta háum standard í stórri keppni.
Leikurinn var skemmtilegur og það var klárlega frábær ákvörðun að fara til Tékklands. Restin af ferðini var síðan bara þessi klassíska. Skoða borgina, versla, borða góðan mat og skemmta sér.
Strákarnir voru ánægðir með flottan leik í Meistaradeildinni
Þá hafa fleiri gert sér ferð til Prag til að sjá leik enda frábært að sjá fyrirliðann leika lykilhlutverk í einu af bestu liðum í heimi. Við munum svo heyra í Söndru sjálfri þegar dvölinni í Prag lýkur. Fram að því óskum við henni góðs gengis með Slavia Prag og hlökkum mikið til að sjá hana aftur með Þór/KA í sumar.