Kvennalið Þór/KA gerði góða ferð suður þegar liðið mætti KR á KR vellinum í 4. umferð Pepsi deildar kvenna í knattspyrnu. Leikurinn var bráðfjörugur og eftir að staðan var 1-2 Þór/KA í vil í hálfleik fóru okkar stúlkur með sigur af hólmi 2-4 og fóru því heim á leið með þrjú stig í farteskinu.
KR 2-4 Þór/KA
0-1 Klara Lindberg 2. mín
1-1 Sigrún Birta Kristinsdóttir 12. mín
1-2 Sandra María Jessen 34. mín
1-3 Klara Lindberg 49. mín
2-3 Chelsea Leiva 62. mín
2-4 Sandra María Jessen 76. mín
Hér má sjá öll mörk leiksins
Það þurfti svo sannarlega ekki að bíða lengi eftir fyrsta marki leiksins en Klara Lindberg skoraði fyrir Þór/KA á 2. mínútu leiksins. Klara fékk sendingu frá vinstri kantinum, tók hann niður og lagði hann svo í netið, virkilega vel að verki staðið.
Heimastúlkur voru þó ekki á því að gefa sig og strax á 11. mínútu jöfnuðu þær metin eftir hornspyrnu en okkar stúlkur náðu ekki að koma boltanum í burtu og Sigrún Birta Kristinsdóttir náði að koma boltanum í markið eftir mikinn atgang.
Sandra María Jessen skoraði síðan virkilega gott mark eftir magnaða sendingu frá Kayla Grimsley í gegnum vörnina og Sandra lék á Hrafnhildi í markinu og lagði boltann í autt netið. Þór/KA var því yfir 1-2 þegar blásið var til hálfleiks.
Rétt eins og í fyrri hálfleiknum voru okkar stelpur ekki lengi að koma sér í færi og skora þegar Klara Lindberg skoraði sitt annað mark í leiknum á 49. mínútu. Kayla Grimsley átti aftur glimrandi sendingu í gegnum KR vörnina og Klara gerði allt rétt og renndi boltanum í hornið.
Klara uppskar svo gult spjald þegar hún hugðist renna sér fyrir spyrnu Hrafnhildar í marki KR en það fór ekki betur en svo að hún fór í Hrafnhildi sem meiddist og þurfti að fara af velli. Heimastúlkur voru ekki með varamarkvörð á bekknum sem verður að telja furðulegt og settu því Sigrúnu Birtu í markið.
Stuttu síðar eða á 62. mínútu kom boltinn í gegnum vörn Þórs/KA og Roxanne Kimberly kom útúr markinu en Chelsea Leiva sóknarmaður KR náði til knattarins, lék framhjá Roxanne og lagði boltann í tómt markið og staðan því 2-3 og enn nóg eftir.
En það var síðan Sandra María Jessen sem slökkti endanlega vonir KR um að fá eitthvað úr leiknum þegar hún skaut boltanum úr frekar erfiðu færi utarlega í teignum en boltinn fór framhjá Sigrúnu og þaðan í stöngina og inn!
Glæsilegt að sækja öll stigin og þessi sigur skilar liðinu á toppinn ásamt Breiðablik en Valur á reyndar leik til góða. Stelpurnar eru að spila glimrandi sóknarbolta sem hefur skilað þremur sigrum í röð en það þarf þó að huga betur að varnarleiknum enda hefur liðið fengið á sig fjögur mörk samtals í síðustu tveimur leikjum.
Stelpurnar eru svo sannarlega á skotskónum þessa dagana, fjögur mörk í þessum leik og fimm í síðasta leik. Það er því líf og fjör í leikjunum hjá stelpunum og hvetjum við því alla til að mæta á næsta leik þeirra sem er heimaleikur gegn ÍA þann 5. júní klukkan 19:15 í 16-liða úrslitum í Bikarnum. Leikurinn verður í Boganum.