Sigur á HK og KA upp í 2. sætið

Elfar Árni getur ekki hætt að skora!
Elfar Árni getur ekki hætt að skora!

KA tók á móti Þorvaldi Örlygssyni og hans lærisveinum í HK í 19. umferð 1. deildar karla í gær. KA hefur verið á gríðarlegu skriði að undanförnu og gat með sigri haldið áfram að þjarma að Þrótturum sem sátu í 2. sæti deildarinnar.

KA 3 - 0 HK
1-0 Elfar Árni Aðalsteinsson ('40)
2-0 Josip Serdarusic ('60)
3-0 Elfar Árni Aðalsteinsson ('90)

Okkar menn hófu leikinn af miklum krafti og fengu vítaspyrnu strax á 10. mínútu leiksins. Elfar Árni Aðalsteinsson tók vítið en Beitir Ólafsson í marki HK varði spyrnuna. Áfram héldu menn að þjarma að HK vörninni og greinilegt að liðið ætlaði sér að sækja sigur í leiknum.

Elfar Árni bætti upp fyrir vítaklúðrið með mjög góðu skallamarki stuttu fyrir hálfleik, algjörlega frábært að ná markinu fyrir hlé. HK mætti betur stemmt til síðari hálfleiks og reyndi að koma sér aftur inn í leikinn en þær vonir hurfu þegar Josip Serdarusic skoraði stórglæsilegt mark með langskoti sem fór í stöngina og inn. Staðan orðin 2-0 og ljóst að þrjú stig sigldu norður í land.

Josip sem var frábær í leiknum var ansi nálægt því að skora þriðja mark leiksins þegar hann átti skot í slánna, eina spurningin í leiknum var í raun hvort KA næði að bæta við marki. Það tókst rétt fyrir lok venjulegs leiktíma þegar Elfar Árni skoraði sitt annað mark í leiknum, flott spil og vel klárað hjá Elfari sem getur ekki hætt að skora!

Mjög sanngjarn 3-0 sigur staðreynd og því hafa allir fjórir leikirnir undir stjórn Tufa unnist og það með markatölunni 15-1. Á sama tíma lagði Fjarðabyggð Þrótt 1-0 sem þýðir það að þegar þrjár umferðir eru eftir af deildinni eru KA og Þróttur jöfn að stigum en KA er fyrir ofan á betri markatölu en þar munar einu marki.

Pepsi draumar okkar lifa því svo sannarlega þegar stutt er eftir af mótinu en það er ljóst að það er enn nóg eftir og mikið sem getur gerst. Næsti leikur er útileikur gegn Víkingi Ólafsvík sem trónir á toppi deildarinnar. Við hvetjum alla til að gera sér ferð næstu helgi á Ólafsvík og styðja KA til sigurs. Það eru í raun bara hreinir úrslitaleikir eftir af deildinni og við ætlum okkur upp, áfram KA!