Sandra María Jessen fyrirliði Íslandsmeistara Þórs/KA hefur verið lánuð til Slavia Prag til loka apríl. Slavia Prag er ríkjandi Tékklandsmeistari og er þetta því frábært tækifæri fyrir Söndru. Á sama tíma árið 2016 fór Sandra á lán til Bayer Leverkusen og lék þar 8 leiki með liðinu í Þýsku Úrvalsdeildinni.
Slavia Prag leikur í Meistaradeild Evrópu og er komið í 8-liða úrslit þar sem liðið mætir Wolfsburg sem Sara Björk Gunnarsdóttir leikur með. Fyrr í keppninni hafði Slavia Prag slegið út þáverandi Íslandsmeistara Stjörnunnar.
Ásamt því að fara fyrir Íslandsmeistaraliði okkar þá hefur Sandra verið iðin við að þjálfa og er ljóst að hún mun halda áfram að vera sú mikla fyrirmynd sem hún er fyrir okkar yngri iðkendur.
Við óskum Söndru Maríu að sjálfsögðu til hamingju með þetta frábæra tækifæri en bíðum að sjálfsögðu spennt eftir því að sjá hana aftur á vellinum með Þór/KA þegar nýtt tímabil hefst.