Kvennalið Þórs/KA lagði nú í kvöld lið KR að velli 2-0 með mörkum Söndru Maríu Jessen. Þetta þýðir að liðið hefur nú unnið fjóra leiki í röð og er áfram í 3. sæti deildarinnar þegar þrettán umferðir eru búnar í Pepsi deild kvenna.
Þór/KA 2 - 0 KR
1-0 Sandra María Jessen ('22)
2-0 Sandra María Jessen ('80)
Strax í upphafi leiks fékk Sandra María Jessen dauðafæri þegar hún komst ein í gegnum vörn KR stúlkna en skaut boltanum yfir. Ekki leið á löngu uns Sandra fékk annað svipað tækifæri en skaut beint á Agnesi í marki KR.
Sandra sýndi karakter og hélt áfram af krafti þrátt fyrir að hafa klúðrað tveimur upplögðum færum, hún sendi boltann fyrir markið stuttu síðar þar sem Kayla Grimsley beið fyrir opnu marki en á ótrúlegan hátt náði varnarmaður KR að koma sér fyrir sendinguna og bjarga.
Þær Sandra og Kayla sýndu svo flott tilþrif þegar fyrri hálfleikur var um það bil hálfnaður þegar þær spiluðu KR vörnina sundur og saman en Sandra setti boltann framhjá að lokum. Markið lá í loftinu og bara tímaspursmál hvenær hún næði boltanum í netið.
Strax á eftir kom Kayla svo með sendingu í gegnum vörnina þar sem Sandra kom á sprettinum og nú gerði hún engin mistök og renndi boltanum undir markvörðinn og Þór/KA komið í 1-0. Lítið markvert gerðist í hálfleiknum eftir markið og spurningin aðeins hvort okkar stúlkur næðu að bæta við forskotið.
Áfram héldu okkar stelpur að leita að marki í síðari hálfleiknum en áfram gekk erfiðlega að koma boltanum í netið. Til að bæta gráu ofan á svart fyrir lið KR fékk Sigrún Birta í liði KR rautt spjald fyrir tuð í dómaranum á 67. mínútu.
Klara Lindberg fékk nokkur tækifæri á að komast á blað en Agnes sá við þrumuskoti frá henni, því næst skallaði hún boltann framhjá og stuttu síðar skallaði hún í stöngina.
En það kom loksins að því að markið sem kláraði leikinn leit dagsins ljós. Kayla með magnaða stungusendingu í gegnum vörnina sem Sandra María náði og fór framhjá Agnesi í markinu og renndi boltanum í autt markið.
Klara Lindberg var síðan felld í teignum af Agnesi í markinu og Þór/KA fékk vítaspyrnu, hinsvegar tók Klara ansi slakt víti sem Agnes var ekki í vandræðum með. Veit ekki hvað Klara ætlaði sér en spyrnan lyktaði af kæruleysi.
Í uppbótartíma fékk Ragnhildur Inga Aðalbjargardóttir ágætisfæri en setti boltann í hliðarnetið og lokatölur því 2-0 fyrir Þór/KA.
Gríðarlega sanngjarn sigur og fjórði leikurinn í röð sem vinnst. Það hefði þó verið gaman að fá fleiri mörk og liðið fékk svo sannarlega tækifærið til þess að bæta við en 3 stig auðvitað það sem mestu skiptir.
Næsti leikur liðsins er útileikur gegn Fylki á sunnudaginn klukkan 16:00.