Pétur Ólafsson lét af störfum sem yfirþjálfari yngri flokka KA í knattspyrnu um síðustu mánaðamót og við starfinu tók Aðalbjörn Hannesson sem er íþróttafræðingur að mennt og þaulreyndur yngriflokkaþjálfari hjá KA.
Pétur Ólafsson hefur þjálfað knattspyrnu hjá bæði yngri sem eldri iðkendum hjá KA frá 1987. Hann var ráðinn yfirþjálfari yngriflokkastarfsins árið 2008 og þarf ekki að hafa mörg orð um að síðustu ár hefur orðið gríðarlegur uppgangur í yngri flokkum KA í knattspyrnu og félagið verið í fremstu röð á landinu í hinum ýmsu aldursflokkum, bæði í karla- og kvennaflokkum. Pétur hefur leitt starfið af festu og bryddað upp ýmsum nýjungum í yngriflokkastarfinu auk þess að vera frumkvöðull af starfrækslu Arsenal knattspyrnuskólans á KA-svæðinu undanfarin sumur.
Aðalbjörn Hannesson er íþróttafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík árið 2013. Hann lauk UEFA A þjálfaragráðu í knattspyrnu ári síðar. Hann hóf að þjálfa yngri flokka KA í knattspyrnu árið 2006, þá 17 ára gamall, og hefur síðan starfað hjá félaginu að undanskildum þeim tíma þegar hann stundaði nám í íþróttafræði í HR, en þá þjálfaði hann hjá Breiðabliki.
Um leið og yngriflokkaráð KA í knattspyrnu færir Pétri Ólafssyni alúðarþakkir fyrir hans mikla og góða starf sem yfirþjálfari yngri flokka félagsins er Aðalbjörn Hannesson boðinn velkominn til starfa.