Kvennalið Þórs/KA gerði í dag 3-3 jafntefli gegn ÍBV í Vestmannaeyjum sem þýðir að liðið endar í 4. sæti Pepsi deildarinnar í ár. Heimastúlkur hefðu með sigri farið upp fyrir Þór/KA en góð byrjun okkar liðs kom í veg fyrir þá drauma Eyjastúlkna.
ÍBV 3 - 3 Þór/KA
0-1 Anna Rakel Pétursdóttir ('22)
0-2 Sandra Stephany Mayor Gutierrez ('32)
0-3 Zaneta Wyne ('58)
1-3 Cloe Lacasse ('84)
2-3 Cloe Lacasse ('87)
3-3 Natasha Moraa Anasi ('93)
Bæði lið byrjuðu leikinn frekar rólega enda vildu bæði lið enda eins ofarlega í deildinni og hægt var. Þó gekk okkar stúlkum betur að stjórna leiknum og voru ívið líklegri til að skora. Það gerðist einmitt á 22. mínútu þegar Anna Rakel Pétursdóttir þrumaði af löngu færi á markið og Bryndís Lára í marki ÍBV réð ekki við.
Sandra Stephany Mayor tvöfaldaði svo forystuna skömmu síðar þegar hún staðsetti sig vel í teignum og Hulda Ósk Jónsdóttir gerði vel í að finna hana með lágri sendingu fyrir markið. Okkar stelpur héldu áfram að leika góðan bolta og var 0-2 forskot liðsins þegar flautað var til hálfleiks mjög verðskuldað.
Zaneta Wyne skoraði þriðja mark Þórs/KA í leiknum þegar Anna Rakel hafði sent boltann fyrir úr aukaspyrnu og Zaneta skoraði af harðfylgi. Staðan orðin 0-3 og flestir farnir að bóka sigur okkar liðs.
Cloe Lacasse í liði heimastúlkna var þó ekki á þeim stuttbuxunum og skoraði tvö mörk seint í leiknum og staðan skyndilega orðin 2-3 og allt í einu komin spenna í leikinn.
Það fór svo á endanum að ÍBV náði að jafna leikinn á 93. mínútu þegar Natasha Moraa Anasi lyfti boltanum yfir Auroru Ceciliu í marki Þórs/KA. Vissulega hundfúlt að missa niður unnin leik á síðustu mínútum leiksins en Þór/KA dugði jafntefli til að tryggja 4. sætið þannig að markmiði dagsins var náð.
Stelpunum var fyrir tímabilið spáð 5. sætinu í deildinni og enda því ofar en margir reiknuðu með. Liðið sýndi í nokkrum leikjum í sumar að það á fullt erindi í toppbaráttuna en í sumar vantaði aðeins upp á stöðugleikann til að halda sér almennilega í þeirri baráttu.