Öruggur sigur Þór/KA á ÍBV

Sandra Mayor getur ekki hætt að skora!
Sandra Mayor getur ekki hætt að skora!

Kvennalið Þórs/KA lagði ÍBV í mikilvægum leik í Pepsi deildinni í dag en liðin voru í 4. og 5. sæti deildarinnar fyrir leikinn. Lið Þórs/KA var miklu mun betra í dag og vann að lokum góðan 2-0 sigur.

Fyrsta mark leiksins kom á 33. mínútu þegar Sandra Mayor skoraði glæsilega eftir flotta fyrirgjöf frá Nataliu Gomez. Lið Þór/KA hafði verið að pressa þó nokkuð á gestina sem höfðu verið að verjast vel.

Leikurinn opnaðist svolítið við markið og fóru leikmenn ÍBV að reyna meira fyrir sér sóknarlega séð en það var hinsvegar Andrea Mist Pálsdóttir sem tvöfaldaði forystuna skömmu fyrir hálfleik þegar Lillý Rut Hlynsdóttir kom knettinum á Andreu sem var alein við fjærhornið og gat ekki annað en sett hann í netið, 2-0!

Fátt markvert gerðist í síðari hálfleiknum, lið Þór/KA var með öruggt tak á leiknum og gestirnir komust lítt ávegis. Hinsvegar fengu gestirnir dauðafæri á 82. mínútu þegar Sigríður Lára Garðarsdóttir fékk boltann rétt við markið en einhvernveginn tókst henni að renna boltanum framhjá.

Til marks um yfirburði okkar stelpna má sjá að þær áttu 17 marktilraunir gegn aðeins 6 hjá gestunum og öruggur 2-0 sigur í höfn. Með sigrinum tryggir liðið sér enn betur 4. sætið og setur pressu á liðin fyrir ofan sem eru Stjarnan, Breiðablik og Valur.

En næsti leikur er einnig heimaleikur gegn ÍBV en liðin mætast á laugardaginn klukkan 13:00 í undanúrslitum Borgunarbikarsins og hvetjum við að sjálfsögðu alla til að mæta og styðja stelpurnar áfram í bikarúrslitaleikinn, áfram Þór/KA!